Rannsakandi í gervigreind (Risamállíkön)

Miðeind óskar að ráða rannsakanda til starfa við spennandi og framsækið þriggja ára evrópskt rannsóknarverkefni sem unnið er í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og fyrirtæki. Verkefnið tengist þróun og þjálfun risamállíkana (e. large language models, LLMs), í fyrstu atrennu fyrir germönsk tungumál, með áherslu á opinn aðgang, áreiðanleika og sjálfbærni.

Þau sem hafa þekkingu á og/eða reynslu af gervigreind, máltækni og mállíkönum eru sérstaklega hvött til að sækja um. Hér gefst gullið tækifæri til að vera í broddi fylkingar þegar kemur að máltækni og gervigreind.

Helstu verkefni og ábyrgð

Þáttur Miðeindar í verkefninu felst m.a. í eftirfarandi:

  • Gagnasöfnun og vinnsla með fjölmála gögn.
  • Þjálfun mállíkana með áherslu á áreiðanleika og traust.
  • Árangursmat mállíkana, hönnun og myndun prófunargagna.
  • Innleiðing mállíkana í vörur, t.d. Emblu (snjall-aðstoðar-app) og Greyni (málgreiningu).
  • Miðlun lausna og niðurstaðna með samstarfsaðilum ásamt möguleika á að gefa út vísindagreinar.

Hæfniskröfur

  • MSc / PhD háskólamenntun eða reynsla sem jafngildir því, svo sem í máltækni, vélanámi, tölvunarfræði eða öðrum skyldum greinum.
  • Reynsla af umfangsmiklum rannsóknarverkefnum á svipuðu sviði, svo sem stórum styrkjaverkefnum með alþjóðlegri samvinnu og samskiptum, er kostur.
  • Hæfni til að framkvæma tilraunir og hanna, þróa og miðla tæknilegum lausnum á árangursríkan og sjálfstæðan hátt.
  • Þekking og reynsla af forritun, hugbúnaðarþróun og þróun tauganeta, t.d. með Python og PyTorch.
  • Stærðfræðiþekking á línulegri algebru og tölfræði.
  • Sjálfstæði og öguð vinnubrögð.
  • Vilji til að tileinka sér nýja þekkingu og færni.
  • Gott vald á ensku og íslensku (eða öðru germönsku máli) í töluðu og rituðu máli.

Hjá Miðeind starfar þéttur og öflugur hópur fólks með brennandi áhuga á máltækni og gervigreind. Við segjum stundum að við störfum á mörkum rannsókna og hagnýtingar, og þar er gaman að vera. Við tókum þátt í fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda, þar sem unnið var að kjarnaverkefnum og innviðum fyrir íslensku. Við þróum jafnframt vörur og þjónustu sem byggja á nýtingu þessarar nýju og spennandi tækni til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Nánari upplýsingar um Miðeind má finna á miðeind.is.

Gert er ráð fyrir staðsetningu á skrifstofu Miðeindar á Fiskislóð í Reykjavík, en hægt er að koma til móts við þarfir umsækjenda varðandi fjarvinnu. Tekið er á móti umsóknum ásamt ferilskrám á starf@mideind.is.

To see this job advert in English, please visit mideind.is/job.html.