Laus störf
Við leitum að hæfileikaríkum framendaforritara með brennandi áhuga á gervigreind, notendaupplifun og hönnun til að ganga til liðs við okkur í máltæknifyrirtækinu Miðeind á skrifstofu okkar í Reykjavík.
Megináhersla starfsins er þróun á okkar helsta vettvangi fyrir máltæknilausnir, Málstað. Þú munt gegna lykilhlutverki í þróun á glæsilegum, notendavænum og afkastamiklum veflausnum og hjálpa okkur þannig að koma framúrskarandi íslenskum gervigreindarlausnum til breiðs hóps notenda.
Hönnun, útfærsla og dreifing á skalanlegum, aðgengilegum og notendavænum veflausnum á Málstað með React, TypeScript og Next.js.
Þróun og dreifing á viðbótum (e. plugins) og samþættingum til að gera lausnir okkar aðgengilegar í hugbúnaði frá þriðju aðilum (t.d. Microsoft).
Náið samstarf með vöruhönnuðum (UI/UX), vörustjórum og bakendaforriturum við að umbreyta hugmyndum í hágæðalausnir.
Leiða hönnun og þróun á API forritaskilum til að tryggja skilvirk og örugg samskipti milli framenda og bakenda.
Þróun og viðhald á samræmdum og endurnýtanlegum viðmótseiningum.
Stuðla að bestu starfsvenjum í framendaþróun, m.a. með tilliti til gæða kóða, afkasta og stafræns aðgengis.
Háskólamenntun sem nýtist í starfi (t.d. tölvunarfræði) eða sambærileg reynsla, þar með talin a.m.k. þriggja ára reynsla af hugbúnaðarþróun með framúrskarandi færni í TypeScript/JavaScript og React.
Reynsla af þróun nútímalegra vefforrita með Next.js fyrir SSR (e. server-side rendering) og SSG (e. static site generation).
Djúpur skilningur á meginreglum notendaupplifunar (UX) og áhugi á að byggja notendamiðuð og aðgengileg viðmót.
Almenn hæfni til að leysa vandamál og yfirstíga tæknilegar áskoranir á skapandi og raunhæfan hátt.
Sýndur árangur í að starfa sem áreiðanlegur liðsmaður með öguð vinnubrögð og frumkvæði.
Framúrskarandi samskiptahæfni og geta til að miðla upplýsingum á áhrifaríkan hátt til samstarfsfólks, bæði tæknifólks og annarra.
Þekking á bestu aðferðum í hugbúnaðarþróun, þar á meðal útgáfustýringu (Git), prófunum og dreifingu.
Vilji til að tileinka sér nýja þekkingu og færni.
Reynsla af Python/bakendaþróun, hönnunartólum (t.d. Figma) og stöðlum um stafrænt aðgengi (WCAG) er kostur.
Miðeind er í broddi fylkingar á Íslandi þegar kemur að gervigreind og máltækni en þar starfar fjölbreyttur og öflugur hópur fólks á mörkum rannsókna og hagnýtingar. Markmið okkar er að styðja íslenskt samfélag og styrkja stöðu tungumálsins með framsýnum lausnum, m.a. með þátttöku í máltækniáætlun stjórnvalda ásamt samevrópska rannsóknarverkefninu TrustLLM. Við þróum jafnframt vörur og þjónustu, líkt og meginvettvang okkar Málstað, sem byggja á nýtingu nýjustu tækni til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf.
Gert er ráð fyrir að viðkomandi starfi almennt á skrifstofunni að lágmarki fjóra daga í viku. Tekið er á móti umsóknum ásamt ferilskrám á starf@mideind.is.