Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Það er gaman í vinnunni

Hjá Miðeind starfar þéttur, öflugur og fjölbreyttur hópur fólks með brennandi áhuga á máltækni og gervigreind. Við segjum stundum að við störfum á mörkum rannsókna og hagnýtingar, og þar er gaman að vera. Við reynum að hafa vinnuumhverfið frjótt og skapandi, og leitum að jafnvægi milli einbeitingar og afkasta annars vegar og afslappaðs andrúmslofts hins vegar. Yfirbyggingu og flækjustigi hvers konar, svo sem fundahöldum, er haldið í lágmarki og boðleiðir eru eins stuttar og kostur er. Vinnutími er sveigjanlegur og vinnuaðstaða fyrsta flokks; þar á meðal er eitthvert besta sjávarútsýni sem völ er á í borginni.

Teymið

Vilhjálmur Þorsteinsson

Stofnandi og stjórnarformaður

Vilhjálmur er stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar. Hann hefur verið viðloðandi íslenska upplýsingatækni í fjóra áratugi. Hann stofnaði sitt fyrsta sprotafyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga sínum. Síðan þá hefur hann komið víða við á upplýsingatæknisviðinu, bæði innanlands og erlendis. Hann hefur m.a. verið stjórnarformaður leikjafyrirtækisins CCP og gagnaversins Verne, og stjórnarmaður í Kögun, Íslandssíma, Og Vodafone, Skýrr, Opnum kerfum, Hands ASA, Auði Capital, Virðingu og Kjarnanum miðlum. Þá hefur hann starfað sem hugbúnaðarhönnuður hjá CODA Group plc og Baan NV. Vilhjálmur hefur einnig fengist við ýmislegt annað í gegnum tíðina, meðal annars portrettmálun, og var einn af 25 þjóðkjörnum fulltrúum sem sátu í Stjórnlagaráði.

Linda Heimisdóttir

Framkvæmdastjóri

Linda er framkvæmdastjóri (CEO) Miðeindar og heldur utan um stjórnun og rekstur fyrirtækisins. Hún er með MA og PhD gráður í málvísindum frá Cornell-háskóla og BA gráðu í íslensku, með latínu sem undirgrein. Linda kom til Miðeindar frá Bandaríkjunum þar sem hún starfaði um árabil við verkefnastjórnun í máltæknigeiranum. Hún er mikill aðdáandi hlaðvarpa og nýtir hvert tækifæri til þess að hlusta á eitthvað fróðlegt. Henni finnst líka gaman að lesa og spila tennis.

Þorvaldur Páll Helgason

Tæknistjóri

Þorvaldur er tæknistjóri (CTO) Miðeindar og hefur yfirumsjón með tækni- og vöruþróun fyrirtækisins. Hann starfaði áður í Bretlandi, síðast hjá Apple að máltækniþróun Siri sem stjórnandi gervigreindarteymis. Þorvaldur hefur MSc gráðu í gervigreind frá Edinborgarháskóla ásamt BSc gráðu í tölvunarfræði. Honum finnst fátt betra en að njóta náttúrunnar á Íslandi og spila gott borðspil.

Hulda Óladóttir

Vörustjóri

Hulda er vörustjóri Miðeindar ásamt því að taka þátt í verkefnum á sviði málrýni og stoðtóla. Hún sameinar kunnáttu í forritun og djúpa þekkingu á íslenskri málfræði og stafsetningu, enda er hún fyrrverandi prófarkalesari. Hulda er með BA gráðu í almennum málvísindum og MA gráðu í máltækni, auk þess að vera liðtæk í verkefnastjórn.

Elías Bjartur Einarsson

Tækniteymi

Elías Bjartur starfar í gervigreindarteymi Miðeindar og kemur þar víða við. Hann er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og er kominn langleiðina að MSc-gráðu í tölvunarfræði. Elías Bjartur stundar klifur, gólfglímu og útivist af miklu kappi og hefur meðal annars unnið sem landvörður og athafnastjóri.

Garðar Ingvarsson Juto

Tækniteymi

Garðar starfar sem rannsakandi innan gervigreindarteymis Miðeindar. Hann er með MSc-gráðu í reiknitölfræði og vélnámi frá UCL og BA-gráðu í tölvunarfræði frá Cambridge-háskóla. Garðar er mikill grúskari og einnig sérlegur áhugamaður um hlutverkaleiki.

Haukur Barri Símonarson

Tækniteymi

Haukur Barri er sérfræðingurinn okkar (og þótt víðar væri leitað) í djúpum tauganetum og gervigreind. Það er varla til sú markverða vísindagrein á því sviði sem hann hefur ekki lesið og skilið. Haukur Barri er með BSc gráðu í tölvunarfræði, reiknifræðilínu, og vinnur að mastersgráðu í hjáverkum.

Haukur Páll Jónsson

Tækniteymi

Haukur Páll er sérfræðingur í gervigreindarteymi Miðeindar. Hann er með mastersgráðu í rök- og reiknifræði frá Amsterdam-háskóla, BSc gráðu í tölvunarfræði og BA í heimspeki. Hann er einnig áhugamaður um rafíþróttir og klifur.

Kári Steinn Aðalsteinsson

Tækniteymi

Kári Steinn er hugbúnaðarsmiður með sérstakan áhuga á notendaupplifun og vefforritun. Hann er með MSc gráðu í gagnvirkri margmiðlunartækni (e. interactive media technology) frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi og BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði. Kári er mikill áhugamaður um íþróttir, tónlist, borðspil og tölvuleiki.

Pétur Orri Ragnarsson

Tækniteymi

Pétur Orri leggur lóð á vogarskálarnar í vélþýðingar- og gervigreindarteymi okkar. Hann kom til Miðeindar frá Marel þar sem hann sá m.a. um innanhúss-útgáfur GNU/Linux stýrikerfisins. Pétur er með MSc gráðu í tölvunarfræði og BSc í stærðfræði.

Róbert Fjölnir Birkisson

Tækniteymi

Róbert vinnur að hagnýtingu gervigreindar, m.a. með tengingum milli gervigreindarlíkana okkar og annars hugbúnaðar. Hann er með MSc gráðu í „Complex adaptive systems“ frá Chalmers-háskóla í Svíþjóð og BSc í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann er mikill prjónamaður og lestrarhestur og skemmtir sér oft í spilum og hlutverkaleikjum, en hefur jafnframt veikan blett þegar kemur að slæmum raunveruleikaþáttum.

Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir

Tækniteymi

Svanhvít Lilja er sérfræðingur í gervigreindarteyminu okkar. Hún er með MA-gráðu í þýðingafræði og hefur meðal annars starfað sem þýðandi og prófarkalesari. Svanhvít er líka með BSc-gráðu í tölvunarfræði og MSc-gráðu í máltækni, talar reiprennandi spænsku og er öflugur skraflari.

Sveinbjörn Þórðarson

Tækniteymi

Sveinbjörn er fjölhæfur forritunarsnillingur sem er m.a. heilinn á bak við Emblu, radd-appið okkar. Það gerist aldrei að komið sé að tómum kofanum hjá honum. Sveinbjörn er sjálflærður hugbúnaðarsmiður með MSc gráðu í heimspeki og MSc gráðu í sagnfræði.

Þórunn Arnardóttir

Tækniteymi

Þórunn vinnur að málrýnilausnum Miðeindar og að mæliprófum á frammistöðu mállíkana, svo aðeins tvennt sé nefnt. Hún er með BA-gráðu í almennum málvísindum og MA-gráðu í máltækni. Þórunn var m.a. um skeið verkefnisstjóri máltækniáætlunar stjórnvalda. Hún hefur áhuga á öllu sem tengist útivist, arkitektúr og tennis.