Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Áramótaannáll Miðeindar 2024

Árið 2024 var viðburða- og árangursríkt hjá okkur í Miðeind. Fyrirtækið dafnaði, starfsmenn voru 16 í lok árs og skriðþunginn óx jafnt og þétt.

Hápunktar ársins voru nokkrir. Fyrst má nefna að Miðeind fékk UT-verðlaun Ský í febrúar, nánar tiltekið „heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi“. Okkur þykir vitaskuld afar vænt um þessa viðurkenningu, fyrir eigin hönd en ekki síður fyrir hönd málstaðar íslenskunnar.

Talandi um málstaðinn, þá hleyptum við vefnum Málstað — krúndjásninu okkar — af stokkunum í september, með fjölmennu og skemmtilegu útgáfuhófi á nýstækkaðri skrifstofu fyrirtækisins. Á Málstað koma helstu máltæknilausnir Miðeindar saman á einum stað og eru samtengdar. Unnt er að nota flesta möguleika Málstaðar ókeypis en með áskrift opnast full virkni vefjarins. Þar má meðal annars fá yfirlestur og málrýni á texta („Málfríður“), breyta tali í texta og skjátexta („Hreimur“), fá svör við spurningum („Svarkur“) og fletta upp samheitum orða. Málstaður mun stækka og breikka enn frekar á nýju ári.

Ég nefndi uppflettingu samheita, sem er nýjasta viðbótin á Málstað. Teymið hjá Miðeind notaði snjallar sjálfvirkar aðferðir, byggðar á gervigreind og opnum gögnum (þar á meðal Íslenskri nútímamálsorðabók Árnastofnunar), til að smíða nýja samheitaorðabók fyrir íslensku. Orðabókin er ókeypis og öllum aðgengileg — og nýtist til að skrifa fjölbreyttari, fjölskrúðugri, fjölþættari, litríkari, margbreytilegri, margslungnari og  tilbreytingarríkari texta (þið sjáið hvað ég gerði þarna).

Í maí slógumst við í för með Lilju Alfreðsdóttur ráðherra menningar- og viðskiptamála og heimsóttum tæknifyrirtæki og -stofnanir á vesturströnd Bandaríkjanna, þar á meðal OpenAI, Anthropic, Allen Institute for AI, Google og Microsoft. Umræðuefnið var málstaður minni tungumála og menningarsvæða á tímum gervigreindar. Fundirnir voru gagnlegir, opnuðu samskiptaleiðir og efldu tengsl við lykilfólk í geiranum.

Þegar fundir okkar með OpenAI voru rétt nýafstaðnir kynnti fyrirtækið til sögu gervigreindar-mállíkanið GPT-4o, sem tók töluverðum framförum í íslensku miðað við fyrirrennarann GPT-4 Turbo. Á mæliprófi Miðeindar sem leggur mat á getu mállíkana til að beygja nafnliði á íslensku nær GPT-4o að leysa 66% dæma rétt, meðan GPT-4 Turbo leysti 57% (og GPT-4 aðeins 22%).

Til að fylgjast með getu helstu gervigreindarlíkana í íslensku bjó teymi Miðeindar til leiðtogatöflu (leaderboard) á vef HuggingFace, þar sem sjá má frammistöðu þeirra í málfræði, staðreyndaþekkingu og ályktunarhæfni á íslensku. Flest þessara mæliprófa eru útbúin innanhúss hjá Miðeind.

Í september boðaði OpenAI til sérstaks málþings í New York, til hliðar við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, um áðurnefndan málstað minni tungumála. Miðeind átti fulltrúa á málþinginu og kynnti þar til sögu hvítbók um áskoranir og leiðir í ljós reynslunnar á Íslandi, sem við skrifuðum í góðu samstarfi við Almannaróm og Menningar- og viðskiptaráðuneyti eftir hvatningu frá OpenAI.

Umrædd reynsla hér á landi hefur nefnilega spurst út víðar, og varð m.a. til þess að Linda Heimisdóttir framkvæmdastjóri fór til Írlands í apríl á fund fulltrúa írska/gelíska málsvæðisins til að deila þekkingu og efla tengsl. Þá tók Linda einnig þátt í umræðum ráðs Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um viðbúnað við gervigreind, í Kaupmannahöfn í september. Linda er góður og eftirsóttur fyrirlesari, og til marks um það fékk TEDx kynning hennar um gervigreind og minni tungumál sérstaka útnefningu (“Editors’ Pick”) hjá TED í maí, og tæplega 30 þúsund áhorf til þessa.

Erlend samskipti gengu í báðar áttir. Í mars fengum við sérlega ánægjulega heimsókn á skrifstofu okkar, en þangað komu hjónin Anya Schiffrin og Joseph Stiglitz til spjalls og skoðanaskipta. Joseph er Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og þekktur höfundur og álitsgjafi á því sviði, en Anya leiðir deild samskipta, tækni og miðla hjá Columbia-háskóla. Umræðuefni voru m.a. þróun og áhrif gervigreindar, fjölmiðlun og samfélagsmiðlar, staða minni tungumála og tækifæri og áskoranir Íslands.

Gervigreind sem er sleip í íslensku býður upp á ýmsa áður óþekkta möguleika, meðal annars í fjölmiðlun. Ný lausn Miðeindar í samvinnu við RÚV er dæmi um þetta. Með henni getur umsjónarfólk RÚV kallað fram frétt úr ritstjórnarkerfi og umbreytt henni á augabragði í aðra útgáfu á auðskildu máli, sem er svo yfirfarin fyrir birtingu á vef RÚV. Þannig er fleirum gefinn kostur á að fylgjast með fréttum og þjóðmálaumræðu, sem bætir lífsgæði og styður við lýðræði og mannréttindi.

Spjallmennið og spurningasvörunar-tólið Svarkur fékk góðar viðtökur og kepptist við að svara spurningum notenda hjá fyrirtækjum og opinberum aðilum, meðal annars hjá Veitum og hjá sveitarfélögum. Málfríður snurfusaði texta í gríð og erg og varð töluvert betri í því á árinu; vélþýðingin okkar sat sveitt við að þýða Evrópureglugerðir hjá Þýðingamiðstöð Utanríkisráðuneytisins, og Hreimur setti skjátexta sjálfvirkt á sjónvarpsþætti, svo nokkuð sé nefnt. (Svo má ekki gleyma Netskraflinu okkar sívinsæla, sem mun eiga 10 ára afmæli á nýju ári og heldur áfram að gleðja þúsundir reglulegra notenda.)

Óhætt er að spá spennandi komandi ári hjá Miðeind enda margt á döfinni og heimur máltækni og gervigreindar á hraðri hreyfingu. Ég hlakka til að takast á við áskoranirnar og grípa tækifærin með okkar frábæra hópi sem verður reyndari og öflugri með hverju árinu.

Gleðilegt nýtt ár!



Efnisorð:
Deildu þessari grein: