Bylting framundan - en verður hún á íslensku?

Greinin birtist upphaflega í Vísbendingu, 24. tölublaði 2025

Útbreiðsla máltækni og gervigreindar er nú í veldisvexti. Vöxturinn er jafnvel enn hraðari en í fyrri stórum tæknibyltingum á sínum tíma: örgjörvinn, einmenningstölvan, internetið, snjallsíminn.

Ég spái því að áhrif gervigreindarinnar eigi eftir að verða meiri á mannlegt samfélag og hagkerfi heims en áhrif fyrri byltinganna sem ég nefndi, og voru þau þó ærin. Þeim breytingum þarf að reyna að stýra í sem besta farvegi þannig að tækifæri og kostir þeirra séu hámarkaðir en hættur og gallar lágmarkaðir.

Eitt af því sem gæta þarf að í því sambandi er stuðningur við íslenska tungu (og sögu og menningu), þannig að íslenskur almenningur og atvinnulíf geti nýtt sér gervigreindartæknina á móðurmálinu en þurfi ekki að skipta yfir í ensku til að njóta ávaxta af henni.

Gervigreind mun hafa áhrif á atvinnulíf og vinnumarkað sem eru ef til vill önnur en mörg sáu fyrir sér. Störf sem snúast að miklu leyti um meðferð og umbreytingu upplýsinga munu eiga í vök að verjast, þar á meðal mörg þau störf sem unnin eru með setu við skrifborð og tölvuskjá frá níu til fimm. Og, nokkuð óvænt, innifelur þetta mengi einnig ýmis skapandi störf, svo sem hönnun og textaskrif og gerð ýmis konar mynd- og myndbandaefnis. Þá er viðbúið að störf við menntir og kennslu taki miklum breytingum.

Aftur á móti eru ýmis líkamleg og þrívíð störf tiltölulega ónæm fyrir áhrifum gervigreindar. Þar má nefna störf sem lúta að heilbrigði og umönnun fólks, þjónustustörf í ferða- og upplifunargeiranum, og störf sem byggja á fjölbreyttum og sveigjanlegum aðgerðum í þrívíðum raunheimi (byggingariðnaður, viðhaldsþjónusta o.fl.) - og verða ekki auðveldlega unnin af þjörkum.

Þessi umbreyting vinnumarkaðar, sem gæti komist á verulegt skrið á næstu 5-10 árum (2-3 kjörtímabil!), mun valda talsverðu umróti sem mæta þarf með aðgerðum. Töluverður fjöldi fólks mun missa vinnuna við hin almennu skrifstofustörf, og það er hópur sem gengur ekki auðveldlega inn í þrívíðu og líkamlegu störfin. Spurn eftir síðarnefndu störfunum mun hins vegar aukast, meðal annars vegna þess að meðalaldur fer hækkandi og aldurspýramídar (á Vesturlöndum) standa ekki lengur með breiðu hliðina niður. Og ef tekst að dreifa ávinningi af framleiðniaukningu vegna gervigreindar vel um samfélagið, mun spurn eftir afþreyingu og upplifun jafnframt aukast, sem kallar á störf á því sviði.

Síðastnefndi punkturinn, um dreifingu ávinnings, er lykilatriði. Að óbreyttu stefnir í að örfá stór tæknifyrirtæki, að mestu staðsett á vesturströnd Bandaríkjanna, fái í sinn hlut töluverðan  skerf af ávinningi tækninnar, en notendur hennar víða um heim afganginn. Nokkurs konar gervigreindarskattur eða -tollur verður því lagður á heimsbyggðina - og streymir til bandarísku tæknifyrirtækjanna og eigenda þeirra. Jafnframt streyma þá gögn og upplýsingar, bæði almennar og viðkvæmar, hvaðanæva að í gagnagrunna sömu fyrirtækja.

Þessu má að hluta til mæta með því að huga að þróun, fínþjálfun og hýsingu eigin gervigreindar innan landa, á vegum einkaaðila og á vegum stjórnvalda. Slík “fullveldis-gervigreind” (“Sovereign AI”) getur annað ýmsum viðföngum innanlands á vegum stjórnsýslu, heilbrigðiskerfis, dómskerfis, löggæslu- og varnarmála o.fl., auk þess að standa almenningi og atvinnulífi til boða. Hún er sérstaklega þjálfuð á gögnum og upplýsingum á tungumáli viðkomandi lands, til viðbótar almennri grunnþjálfun á öðrum tungumálum. Ef vel tekst til getur fullveldis-gervigreind lækkað “gervigreindarskattinn” til stóru tæknifyrirtækjanna, stutt við tungu og menningu, gert kleift að taka sérstaklega á bjögum og skekkjum í gögnum, skapað forsendur fyrir vali og síun þjálfunargagna með tilliti til höfundarréttar og persónuverndar, og aukið þjóðaröryggi.

Fullveldis-gervigreind er hins vegar aðeins lítill hluti af hugsanlegri lausn á fyrirsjáanlegri röskun á vinnumarkaði. Finna þarf leiðir til að færa ávinning af aukinni framleiðni að hluta til sameiginlegra sjóða í jöfnunarskyni, þannig að unnt sé að stytta vinnuviku, efla sí- og endurmenntun, lækka eftirlaunaaldur, og styðja við atvinnulausa, hugsanlega með því að færa atvinnuleysisbætur nær því að vera borgaralaun (“universal basic income”).

En á móti þarf að skapa frekari hvata til að fá fólk til að sinna erfiðu, stundum óhreinu, þrívíðu störfunum sem gervigreind og þjarkar munu ekki annast. Það getur því komið upp sú ókunnuglega staða á vinnumarkaði að skrifstofustarfið sem krefst háskólamenntunar verði verulega verr launað en umönnun aldraðra á hjúkrunarheimili eða hreinsun á skolplögnum - enda verður spurn eftir fyrrnefnda starfinu miklu minni en eftir þeim síðarnefndu, og framboð að sama skapi öfugt.

Það hefur sýnt sig í fyrri tæknibyltingum að stefnumótun og regluverk stjórnvalda hefur tilhneigingu til að fylgja á eftir tæknikúrfunni í stað þess að vera samhliða henni eða á undan. Ég tel að enn skorti nokkuð á stefnumótun og aðgerðir til að styrkja stöðu íslenskrar tungu og menningararfs þegar kemur að þjálfun gervigreindar og framboði hennar. Ég tel jafnframt að ákveðin ögurstund sé framundan. Annað hvort muni takast að koma tungumálinu kyrfilega inn í meginstraum tækninnar þar sem það verði svo sjálfgefið áfram, eða að það falli út í vegkantinn þar sem tæknin verði markvert betri og nýtilegri á ensku, notkunin færist þangað og eftir það verði ekki til staðar áhugi eða metnaður til að brúa bilið.

Hin megináskorun stjórnvalda er að undirbúa viðbrögð við samfélagslegri og efnahagslegri umbyltingu sem mun endurskilgreina vinnumarkaðinn og kalla á nýjar hugmyndir um dreifingu ávinnings og verðmætasköpunar. Jafnvel þótt okkur takist að tryggja að tæknin virki á íslensku, stendur eftir sú stóra og flókna spurning hvernig við ætlum að haga samfélagsgerðinni þegar hefðbundin störf og verðmætasköpun taka stakkaskiptum.

Hér eru því borðliggjandi viðfangsefni, ekki aðeins fyrir tæknifólk, heldur fyrir stefnumótendur, hagfræðinga, stjórnmálafræðinga, forystufólk í atvinnulífi og á vinnumarkaði. Náum við að móta samfélag þar sem tækniþróunin þjónar almannahagsmunum – samfélag sem er undirbúið fyrir breytingar og tryggir velferð allra, ekki bara þeirra sem standa næst tækninni; og samfélag þar sem íslensk tunga og menning lifa áfram og eflast? Það er stóra spurningin sem framundan er.

Skráðu þig á póstlistann okkar!

Efnisorð:
Deildu þessari grein: