Eindir og Escher: Um nafn og merki Miðeindar

Hefurðu velt fyrir þér hvaðan nafn Miðeindar og merkið okkar kemur? Í þessum pistli færðu svörin!

Fyrst smá eðlisfræði: Allur efnisheimurinn er samsettur úr efni og orku, og minnstu aðgreinanlegu einingar hvors um sig eru eindir (e. particles). Til eru m.a. létteindir (leptons), þungeindir (baryons) - og miðeindir (mesons). Þekktasta létteindin er rafeind, en róteindir og nifteindir — sem mynda kjarna frumeinda — eru þungeindir. Hins vegar er varla hægt að tala um að miðeindir séu almennt vel þekktar, enda lifa þær afskaplega skammt, styttra en eina nanósekúndu (einn milljarðasta úr sekúndu). Fyrirtækið Miðeind hefur aftur á móti lifað í 320 milljón sekúndur, eða rúm tíu ár, og á eftir að endast mun lengur en það.

Stofnandi Miðeindar, Vilhjálmur Þorsteinsson, er sonur Þorsteins Vilhjálmssonar heitins, sem var prófessor í eðlisfræði. Vilhjálmur tók á sínum tíma þátt í Ólympíukeppninni í eðlisfræði fyrir Íslands hönd. Það var því nærtækt fyrir Vilhjálm að leita í eðlisfræðina þegar kom að því að finna nafn á fyrirtækið - og Miðeind þótti honum hljóma vel, a.m.k. betur en Létteind eða Þungeind.

Framan af notaði Miðeind merki sem Vilhjálmur teiknaði sjálfur og leit svona út:

Þegar fyrirtækinu óx fiskur um hrygg varð tímabært að hugsa vandlega og til framtíðar um vörumerkjastefnu þess, ímynd og útlit. Þar var tekinn sá póll í hæðina – eins og í fleiru sem Miðeind gerir – að vanda vel til verka þótt það sé meiri fyrirhöfn og kostnaður í upphafi, en fá þá afurð sem getur enst lengi og staðist tímans tönn.

Leitað var til þriggja hönnunar- og vörumerkjastofa um tillögur að nálgun fyrir Miðeind, sem greitt var fyrir. Eftir yfirferð og samanburð var ljóst að hönnunarstofan Peel skaraði fram úr, og fékk í kjölfarið það verkefni að fullhanna merki og grafíska ímynd Miðeindar.

Meðal þess sem greip auga hönnuðanna hjá Peel var skýringarmynd í Wikipediu-greininni um hinar ýmsu tegundir miðeinda og hvernig þær tengjast innbyrðis:

Annað sem kom til umræðu við hönnuðina sem skemmtilegt útsæði hugmynda var bókin Gödel, Escher, Bach: an Eternal Golden Braid eftir Douglas Hofstadter. Sú bók tengir saman stærðfræði, tónlist og myndlist, sérstaklega verk hollenska myndlistarmannsins Maurits Cornelis Eschers:

Þegar áðurnefndur sexhyrningur miðeindanna, ómöguleg þrívídd M.C. Eschers og bókstafurinn M komu saman hjá hönnuðunum, varð útkoman sú sem við þekkjum:

Merkið samanstendur af sjö teningum sem tengjast með þremur “brúm” í anda Eschers, og hægt er að sjá bókstafinn M út úr mynstrinu. Merkið grípur meðal annars augað vegna þess að það gefur í skyn þrívídd, sem er samt margræð og gengur í raun ekki upp, ekki frekar en hjá Escher. Þá er merkið einfalt og sterkt - og, eins og við munum sjá hér á eftir, gefur það færi á ýmis konar tilbrigðum og leik.

Þegar kom að letri fyrir fyrirtækisnafnið MIÐEIND varð fyrir valinu fonturinn Locator Display eftir hönnuðinn Eric Olson. Letrið er skýrt og skorinort, en ekki sérlega algengt og skapar því ákveðna sérstöðu. Það sameinar boga og horn á víxl á skemmtilegan hátt, sem gæti t.d. minnt á samspil raun- og hugvísinda, listar og stærðfræði, hins stafræna og hins hliðræna.

Með staðlaða Locator letrinu óbreyttu myndi nafn Miðeindar líta svona út:

Nafnið í merkinu okkar lítur hins vegar svona út:

Fyrir utan að það er örlítið lengra milli bókstafanna þá felst meginmunurinn í strikinu í Ð-inu (tókstu eftir því?). Peel breytti strikinu og gerði það fallegra, breiðara og rúnnaði hægri kantinn þannig að hann félli betur inn í D-formið. Já, það var nostrað við smáatriðin!

Áður var nefnt að merki Miðeindar byði upp á ýmis tilbrigði - og þar sem það er í gráskala er auðvelt að nota liti með því. Tekin var sú stefna að vörur Miðeindar fengju sín eigin merki sem byggð væru á sömu grunnhugmynd og merki fyrirtækisins. Tökum sem dæmi radd-aðstoðar-appið Emblu:

Hér eru teningarnir sjö tengdir saman með sex Escher-brúm sem mynda bókstafinn “e” - fyrir Emblu.


Ákveðið var að nota fontinn Lato eftir Łukasz Dziedzic fyrir allan útgefinn texta á vegum Miðeindar, þar á meðal þennan texta sem þú ert að lesa núna. Lato er faglegt, snyrtilegt og afar fjölhæft letur sem til er í mörgum sverleikum og tilbrigðum. Það sameinar að vera auðlesið í venjulegum texta og að bjóða upp á ýmsa möguleika í fyrirsögnum og hliðarefni:

Nýjustu samtengingu vörumerkja Miðeindar má svo sjá í merki Málstaðar, sem er sameiginlegur vettvangur fyrir flestar okkar vörur - og þær eiga hver sinn fulltrúa í hinum marglitu teningum merkisins:

Við hjá Miðeind erum afskaplega ánægð með merkin okkar og hvernig til hefur tekist við mótun grafískrar ímyndar fyrirtækisins, með góðri hjálp snillinganna hjá Peel. Við vonum að ímyndin haldist í hendur við þá upplifun viðskiptavina og almennings að fyrirtækið sé framsækið, faglegt og traust.

Rétthafar mynda:

Mynd 1: Wikipedia, User:E2m, User:Stannered - Image:Noneto mesônico de spin 0.png

Mynd 2: © 2014 The M.C. Escher Company / mcescher.com

Efnisorð:
Deildu þessari grein: