Gemini 3 efst á íslenskri stigatöflu risamállíkana

Nýjasta risamállíkan Google, Gemini 3, hefur náð efsta sætinu á íslenskri stigatöflu risamállíkana sem Miðeind heldur úti.

Líkanið fær 88,07% í meðaleinkunn sem er talsvert stökk frá fyrra meti. Google Gemini 2.5 var áður efst með 82,6%. Google vermir því nú tvö efstu sætin á listanum.

Sérstaka athygli vekur frammistaða líkansins í WikiQA-IS, sem mælir þekkingu á íslenskri menningu og sögu. Þar skoraði Gemini 3 64,82%, en besta frammistaða hingað til var 52,66% (Gemini 2.5). Líkanið sýndi einnig miklar framfarir í að bera kennsl á málfræðivillur (GED) með 81% nákvæmni, og skaut þar GPT-5.1 ref fyrir rass sem var með 75%.

Þessi hraða þróun og afburðaframmistaða bendir til þess að núverandi mælikvarðar séu að verða mettaðir og þörf sé á flóknari prófum. Að sama skapi eru það frábærar fréttir að íslenskugetan sé orðin það góð að við þurfum að fara huga að erfiðari verkefnum.

👉 Sjáðu listann hér: Icelandic LLM Leaderboard
ℹ️ Lestu nánar um stigatöfluna: Íslensk stigatafla risamállíkana

Skráðu þig á póstlistann okkar!

Deildu þessari grein: