Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Miðeind fær nýja stjórn

Hjálmar Gíslason og Kristín Pétursdóttir hafa tekið sæti í stjórn Miðeindar ehf., hugbúnaðarfyrirtækis sem vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Þau mynda þriggja manna stjórn fyrirtækisins ásamt Vilhjálmi Þorsteinssyni stjórnarformanni og stofnanda Miðeindar. Linda Heimisdóttir hefur tekið við af Vilhjálmi sem framkvæmdastjóri Miðeindar, en hann starfar áfram hjá fyrirtækinu við vöruþróun og stefnumótun.

Hjálmar Gíslason er stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins GRID. Hjálmar starfaði áður sem yfirmaður vörustjórnunar hjá Qlik í Boston. Hann stofnaði fyrirtækið DataMarket árið 2008, sem var selt til Qlik árið 2014. Hjálmar er gegnheill gagnanörður og raðfrumkvöðull, en GRID er fimmta sprotafyrirtækið sem hann stofnar á ferlinum. Íslensk máltækni er Hjálmari ekki með öllu ókunnug, en hann smíðaði m.a. leitarvélina Emblu fyrir mbl.is á sínum tíma og aðstoðaði við stafræna útgáfu Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls hjá Árnastofnun.

Kristín Pétursdóttir er hagfræðingur að mennt. Hún hefur áratuga stjórnunarreynslu úr fjármálageiranum þar sem hún var m.a framkvæmdastjóri fjárstýringar í Kaupþingi, aðstoðarforstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, annar stofnenda og forstjóri Auðar Capital, og stjórnarformaður Kviku Banka auk þess sem hún var um tíma forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins InfoMentor. Hún hefur setið setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs, og í fjárfestingaráðum framtakssjóða. Síðustu ár hefur Kristín starfað sem stjórnunarráðgjafi og situr m.a. í stjórnum Arion banka og GRID.

Linda Heimisdóttir er með MA og PhD gráður í málvísindum frá Cornell háskóla og BA gráðu í íslensku, með latínu sem undirgrein. Linda hefur áralanga reynslu úr máltæknigeiranum en undanfarin ár starfaði hún hjá alþjóðlega fyrirtækinu Appen, sem sérhæfir sig í söfnun og merkingu gagna fyrir máltækni og gervigreind. Linda gegndi ýmsum störfum hjá Appen, nú síðast sem verkefnastofustjóri (e. Program Manager) á sviði máltækniverkefna. Linda gekk til liðs við Miðeind í byrjun árs 2023, þá sem rekstrarstjóri fyrirtækisins.

„Framundan eru stór tækifæri og miklar áskoranir á sviði máltækni og gervigreindar enda er þróunin geysihröð á þessu spennandi sviði. Miðeind hefur nú fengið til liðs við sig sannkallað draumateymi til að móta stefnu og sækja fram, á grunni reynslu og þekkingar sem við höfum aflað í starfi okkar síðastliðin 8 ár. Ég hefði ekki getað hugsað mér öflugri liðsauka og betri liðsfélaga í sókninni en þau Hjálmar, Kristínu og Lindu,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar.

Miðeind hefur frá árinu 2015 unnið að þróun hugbúnaðar á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Meðal vara fyrirtækisins eru snjall-aðstoðar-appið Embla, málrýni-verkfærið Yfirlestur.is, þýðingarvélin Vélþýðing.is og krossgátu-appið Explo. Miðeind hefur verið stór þátttakandi í máltækniáætlun stjórnvalda og vinnur nú að ýmsum tengdum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum. Þá hefur fyrirtækið unnið með OpenAI að íslenskustuðningi í gervigreindarlíkaninu GPT-4.

Efnisorð:
Deildu þessari grein: