Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Allt um fyrstu útgáfu Málstaðar

shape


Við hjá Miðeind erum stolt að kynna nýjustu vöru okkar, Málstað, sem sameinar allar helstu lausnir Miðeindar á einn samþættan vettvang. Málstaður styður fumlaust flæði á milli undirliggjandi lausna til að flýta fyrir og auðvelda vinnu, þannig að það hefur aldrei verið auðveldara að vinna með íslenskan texta og tal frá A til Ö. Málstaður eykur notagildi stakra lausna, og flæði þeirra á milli bætir heilmiklu við heildarvirknina og notendaupplifun.

Hægt er að nota Málstað án endurgjalds á málstaður.is. Áskrift innifelur aukin fríðindi umfram ókeypis útgáfu Málstaðar, sem má lesa um á málstaður.is/áskrift. Málstaður býður einnig upp á fyrirtækjaáskrift fyrir áhugasöm, en hafa má samband á malstadur@mideind.is.

Málstaður hlaut Vaxtarstyrk úr Tækniþróunarsjóði vorið 2024, sem hefur hjálpað gífurlega við að ná markmiðum.

Hvaðan kom hugmyndin að Málstað?

Miðeind ehf. er leiðandi á sviði máltækni- og gervigreindarlausna fyrir íslensku. Við leggjum okkur fram um að vera í fararbroddi máltækni og gervigreindar á Íslandi, og erum með puttann á púlsinum í þeim efnum. Miðeind er með eitt stærsta teymi sérfræðinga í gervigreind og máltækni sem fyrirfinnst á landinu, sem er vel inni í nýjustu vendingum.

Eitt af lykilgildum Miðeindar er að styðja íslenskt samfélag, og styrkja stöðu tungumálsins með framsýnum lausnum í máltækni og gervigreind. Við viljum koma hagnýtri gervigreind og máltækni í hendurnar á sem flestum, ásamt því að þróa og reka lausnir fyrir atvinnulíf og opinbera aðila. Almenningur hefur ekki fengið nægan stuðning hingað til, og þar með fæddist hugmyndin að Málstað, þar sem almenningur getur án endurgjalds notað fremstu gervigreindarlausnir fyrir íslensku.

Undirliggjandi lausnir Málstaðar

Í fyrstu útgáfu Málstaðar eru þrjár lausnir leiddar saman; Málfríður, Hreimur og Svarkur. Von er á fleiri lausnum Miðeindar inn í Málstað á næstu misserum, með það að markmiðið að koma betur til móts við þarfir almennings á Íslandi.

Málfríður

Málfríður er hjartað í Málstað og gerir auðvelt að búa til góðan texta. Málfríður notar gervigreind til að greina og lagfæra atriði í stafsetningu, málfræði og stíl í texta á augabragði.

Hvernig nota ég Málfríði?

Þú getur skrifað beint í ritil í viðmóti eða afritað inn texta, og svo unnið efni áfram í ritlinum. Málfríður les yfir það sem skrifað er inn og kemur með ábendingar um það sem betur mætti fara. Ábendingarnar geta snúist um margs konar málfarsatriði, svo sem stafsetningu, málfræði, orðaval og greinarmerki. Hægt er að samþykkja allar ábendingar á einu bretti, en einnig er hægt að fara í gegnum eina í einu og fá nánari upplýsingar.

Með áskrift er einnig hægt að taka við textum úr Hreimi og vinna áfram. Hvort sem þú ert að skrifa bók, undirbúa kynningu, eða vilt einfaldlega skrifa betri tölvupósta, þá er Málfríður öflugt verkfæri sem hjálpar skilaboðum þínum að hitta í mark.

Hreimur

Með Hreimi er hægt að fá og skrá góðar hugmyndir hvar sem er. Í daglegu amstri getur það sparað mikinn tíma að velta upp hugmyndum og texta upphátt. Hins vegar er það tímafrekt og flókið að umskrifa talað mál á skrifað form með réttum greinarmerkjum og sniðmáti.

Hreimur tekur inn mælt mál og snýr því yfir í hreinskrifaðan texta með greinarmerkjum og hástöfum á réttum stöðum. Textinn þarfnast því lágmarkslagfæringa – til dæmis með hjálp Málfríðar – áður en hann er unninn áfram.

Hvernig nota ég Hreim?

Þú byrjar á að taka upp tal þitt í viðmóti, en áskrift býður upp á að senda inn hljóðskrár á öllum helstu skráarsniðum.  Hreimur greinir síðan talið, breytir því í skrifaðan texta og bætir sjálfkrafa við greinarmerkjum þar sem við á. Hægt er að senda textann yfir í Málfríði til frekari vinnslu. Hægt er að hlaða niður upptökunni og svo textanum sem út kemur.

Hreimur opnar nýjar leiðir fyrir skapandi og fagleg skrif, með því að gera ferlið frá tali til texta einfaldara, hraðara og nákvæmara. Hvort sem þú ert rithöfundur, fréttamaður, nemandi, eða fyrirlesari, mun Hreimur breyta því hvernig þú vinnur með texta.

Svarkur

Svarkur er spurningasvörunar- og leitarlausn Miðeindar. Með Svarki er hægt að spyrja spurninga og fá svör á mannamáli. Svarkur styður mörg tungumál, sem gerir hann að verkfæri sem hentar fjölbreyttum þörfum. Hægt er að spyrja spurningar og fá svar á sama tungumáli, upp úr gagnagrunnum sem geta verið á öðru tungumáli.

Svarkur horfir til margra heimilda í einu þegar svar er myndað og tekur tillit til fyrra samhengis í samtali í svörum sínum. Ef svar sem fæst er ekki fullnægjandi, er hægt að spyrja áfram og nákvæmar. Auk svars skilar Svarkur vísunum í þær heimildir sem notaðar voru til að vinna svarið. Þannig getur notandi sannreynt svarið og kynnt sér ítarefni.

Ef engar heimildir finnast fyrir svari, skilar Svarkur stöðluðu svari þess efnis í stað þess að fleipra. Þannig fer Svarkur ekki út fyrir hlutverk sitt og býr ekki til svör sem byggja á sandi. Svarkur hlaut Vaxtarstyrk úr Tækniþróunarsjóði haustið 2023.

Hvernig nota ég Svark?

Þú getur annaðhvort skrifað eða lesið inn spurningu í viðmótið. Þú þarft ekki að tileinka þér sérstakan orðaforða til að nota Svark, heldur getur þú spurt á eðlilegu máli sem þér er tamt. Svarkur svarar á skýrri og knappri íslensku, eða öðrum tungumálum ef óskað er. Svarkur svarar spurningunni og vísar í þær heimildir sem koma við sögu, svo að þú getir kynnt þér málið betur.

Að lokum

Við erum ótrúlega spennt að sjá Málstað komast í notkun hjá almenningi, og að sjá þann ávinning sem hægt er að ná fram með því að hagnýta slíkar lausnir.

Hægt er að prófa Málstað ókeypis með innskráningu á málstaður.is. Við hvetjum öll til að prófa og tökum glöð við hvers kyns endurgjöf til að bæta Málstað.

Efnisorð:
Deildu þessari grein: