Nýtt! Prófaðu Málstað, vettvang fyrir allar helstu vörur Miðeindar.

Framkvæmdastjóri Miðeindar í pallborði um gervigreind og jafnrétti í Brussel

Norrænu sendiráðin í Brussel stóðu fyrir áhugaverðri pallborðsumræðu þann 10. mars í tilefni af Alþjóðadegi kvenna. Umræðuefnið í ár var dulinn kynjahalli í gervigreind og meðal frummælenda var Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar.

Viðburðurinn var haldinn sem morgunverðarfundur og mættu um 100 gestir til að hlýða á umræðurnar. Sendiherrar Íslands og Danmerkur, Kristján Andri Stefánsson og Susanne Shine, voru gestgjafar viðburðarins og fluttu opnunarorð.

Auk Lindu tóku þátt í pallborðinu þau Linda Liukas, barnabókahöfundur og menntunarsérfræðingur frá Finnlandi, Marija Slavkovik, prófessor í siðfræði gervigreindar frá Noregi, og Maja Fjaestad, prófessor og fyrrverandi ráðherra frá Svíþjóð. Christoffer Frendesen frá Danmörku stýrði umræðunum.

Helstu niðurstöður pallborðsins voru meðal annars að:

  • Gervigreindakerfi endurspegla samfélagslegan halla, þar á meðal kynjahalla, og geta óvart styrkt slíkan halla – en við höfum verkfæri til að knýja fram breytingar.

  • Til að tryggja sanngirni og að gervigreind skili ávinningi fyrir öll þarf fjölbreyttar raddir og sjónarmið úr ólíkum áttum, allt frá menntun til stefnumótunar.

  • Fjölbreytni í gervigreind á sviði tungumála og menningar er jafn mikilvæg. Stuðningur við minni tungumál eins og íslensku hjálpar til við að skapa sanngjarnari tækni.

  • Siðferðileg þróun gervigreindar er ekki aðeins tæknilegt verkefni; það er samfélagsleg ábyrgð.

Linda lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja að gervigreindarlausnir fyrir minni tungumál eins og íslensku fái nægilegt fjármagn og stuðning, þar sem slíkar lausnir eru nauðsynlegar til að tryggja jafnt aðgengi allra að tækninni. Miðeind hefur enda verið ötul í baráttunni fyrir málstað íslenskrar tungu.

Ein af meginniðurstöðum umræðnanna var að ekki er til nein skyndilausn á jafnréttismálum – málið snýst um að brjóta niður feðraveldisskipulag samfélagsins sem enn er ríkjandi í mörgum geirum, þar á meðal í tæknigeiranum. Bjagalaust samfélag er besta leiðin að bjagalausri gervigreind.

Viðburðurinn minnti á mikilvægi þess að halda slíkum umræðum áfram og vinna að framtíð gervigreindar sem þjónar öllum – á sanngjarnan og jafnan hátt.

Efnisorð:
Deildu þessari grein: