Þýðingarvélin Erlendur mætti til sögunnar ásamt hópáskrift fyrir réttum mánuði, eins og við tilkynntum við það tilefni. Erlendur hefur fengið gríðargóðar viðtökur og þökkum við kærlega fyrir. Nú höfum við gert Málstað enn gagnlegri svo að notendur njóti góðs af.
Mýmargir fundir og fyrirlestrar fara fram á hverjum degi, og innihalda oft mikilvægar en óaðgengilegar upplýsingar.
Við höfum nú bætt við Málstað nýrri virkni sem nýtist fyrir efni af ýmsum meiði, svo sem fundi, fyrirlestra, fréttir og vísindagreinar.
Samantektarvirknin skilar samantekt upp úr texta, svo sem á formi fundargerðar, þar sem dagskrá, umræður og ákvarðanir eru dregnar saman á hnitmiðaðan hátt á íslensku og skipt upp eftir umfjöllunarefnum.
Hægt er að senda texta beint inn í samantektina úr Málfríði, en einnig er hægt að tengja aðrar lausnir Málstaðar inn í lengra flæði. Þannig er hægt að senda upptöku af fundi inn í Hreim til talgreiningar og fá út uppskrifað handrit fundarins með tímakóðum. Þaðan má senda handritið til samantektar Málfríðar, og fá út hnitmiðaða fundargerð. Loks er mögulegt að senda fundargerðina til Erlends og fá hana þýdda á fjölmörg tungumál.
Virknin eykur hagkvæmni og skilvirkni í úrvinnslu funda og fyrirlestra og dregur úr handavinnu, ásamt því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og miðlun þeirra. Samantektarvirknin útvíkkar enn frekar nýtingarmöguleika Málstaðar svo hann gerir meira fyrir þig.
Á myndbandinu að neðan sést dæmi um hvernig samantektin virkar fyrir fund skemmtinefndar Miðeindar.
Auk nýju virkninnar höfum við uppfært viðmótið hjá okkur til að gera það notendavænna. Nú hefur hver lausn innan Málstaðar sína valstiku en töfratakkinn, ný viðbót, inniheldur allar aðgerðir sem tengjast flæði milli lausna og áskriftarvirkni. Við vonum að töfratakkinn auðveldi notendum lífið og geri notkun Málstaðar töfrum líkasta!
Við höfum við þetta tilefni aukið við þau fríðindi sem þú færð í Málstað sem áskrifandi. Aðgangur að samantektinni er innifalinn í einstaklingsáskrift, og hægt er að senda inn 40.000 stafi í mánuði, eða alls 20.000 stafi í einu. Samantektin er einnig aðgengileg í hópáskrift, þar sem greitt er eftir notkun og hægt er að nota eins mikið eða lítið og þér hentar. Verðið þar er 10 kr. á hver 1.000 stafabil.
Nánar má sjá verðskrá okkar á áskriftarsíðu Málstaðar.
Við höfum uppfært skilmála okkar til að endurspegla þessar breytingar. Einnig er vert að nefna að Málstaður nýtir nú þjónustu Google Vertex innan Evrópu, þannig að gögn eru aðeins send til vinnsluaðila innan evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þjónustan er einnig þannig sett upp að hvorki Google né eigendur risamállíkananna sem kallað er á hafa aðgang að gögnunum sem send eru í gegnum þjónustuna. Með þessu er framfylgt stefnu Miðeindar um ábyrga og gagnsæja notkun gervigreindar.
Hægt er að nálgast notkunarskilmála hér.
Hægt er að nálgast persónuverndarstefnu hér.
Við vinnum stöðugt að því að bæta þjónustu okkar og ýmislegt spennandi er í farvatninu.
Tenging við ytri kerfi á borð við lausnir Microsoft (Word, Outlook og Teams)
Uppflettingar og orðabókarvirkni í Málfríði og Erlendi
Margvísleg aukin virkni og tenging lausna innan Málstaðar
Njóttu uppfærðs Málstaðar og fylgstu áfram með hér!