Á tímum alþjóðavæðingar er ekki óalgengt að framtíðarmöguleikar íslenskra sprotafyrirtækja í tækni- og nýsköpunargeiranum séu fyrst og fremst metnir út frá tækifærum til útrásar, þ.e.a.s. hversu líklegt er að tæknin eða varan muni ná fótfestu á erlendum mörkuðum. Í þessu sambandi er gjarnan talað um hugvitsdrifinn útflutning og áhersla lögð á þau miklu vaxtartækifæri sem felast í iðnaði sem lýtur ekki náttúrulegum vaxtarskorðum, líkt og t.d. ferðamennska. Þetta viðhorf endurspeglast til dæmis í styrkjaumhverfi nýsköpunargreina á Íslandi þar sem viðtekin venja er að meta gæði umsókna m.a. út frá vaxtarmöguleikum erlendis. Þessi hugsunarháttur setur óneitanlega hugbúnaðarfyrirtæki á borð við Miðeind í erfiða stöðu enda eru útrásartækifæri í íslenskri máltækni takmörkuð eins og gefur að skilja. En þetta skapar okkur líka þá sérstöðu að vera fyrirtæki sem vinnur að háþróaðri gervigreind fyrir íslenskan markað, og íslenskt samfélag, eingöngu. En hver er þá, í kapítalísku samfélagi, tilgangur fyrirtækis sem setur sér viljandi fastar vaxtarskorður?
Við hjá Miðeind segjum gjarnan að við störfum á mörkum rannsókna og hagnýtingar. Þegar fyrirtækið tók til starfa árið 2015 var lítið til af grunnlausnum fyrir íslenska máltækni og því voru varla forsendur fyrir öðru en að leggja áherslu á rannsóknir og frumþróun ef ætlunin var að starfa á þessu sviði á annað borð. Á þessum tíma var máltækni einnig annars eðlis en hún er í dag, eins og við fórum nýlega yfir í pistli um þróun máltækni frá reglukerfum til gervigreindar.
Í dag eru til margmála gervigreindarmállíkön sem hægt er að fínþjálfa á íslenskum gögnum, eða virka jafnvel á íslensku án nokkurrar sérþjálfunar. Í árdaga Miðeindar þurfti hins vegar að þróa flestar máltæknilausnir frá grunni. Sú þróun var tímafrek og kostnaðarsöm og því var árið 2019 hrundið af stað sérstakri máltækniáætlun fyrir íslensku, sem var fjögurra ára verkefni fjármagnað af ríkissjóði. Afraksturinn var hágæða málföng sem hafa m.a. nýst við þjálfun gervigreindarlíkana í seinni tíð.
Miðeind tók þátt í máltækniáætlun og óx og dafnaði á þessum tíma. Við vorum lítil í byrjun en undir lok áætlunarinnar var slagkrafturinn orðinn talsverður. Til varð framtíðarsýn um sjálfbært fyrirtæki sem þjónaði íslenskum almenningi með framúrskarandi máltæknilausnum.
Þegar þetta er skrifað telur teymi Miðeindar 16 manns og framtíðarsýnin hefur að hluta til raungerst með Málstað, málvinnsluvettvangi sem býður upp á bestu fáanlegu máltækni fyrir íslensku. Auk þess að þróa og reka Málstað hefur Miðeind útbúið sérhæfðar lausnir fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir og hefur skapað sér nafn og traust fyrir djúpa sérfræðiþekkingu á sviði gervigreindar.
Miðeind er stofnuð og fjármögnuð af Vilhjálmi Þorsteinssyni í þeim tilgangi að gera samfélaginu gagn, styðja við tungumálið okkar — og hafa gaman í leiðinni. Auk tekna af áskriftum og þróunarverkefnum og fjármagns úr máltækniáætlun höfum við reitt okkur á hina ýmsu styrki, t.d. úr Tækniþróunarsjóði og Markáætlun í tungu og tækni, til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Miðeindar. Framtíðarsýnin um sjálfbærni hefur þó ekki enn raungerst og því höfum við líka reitt okkur á eigin fé sem lagt var til af eiganda við stofnun fyrirtækisins.
Í hvers kyns fyrirtækjarekstri þarf reglulega að spyrja áleitinna spurninga um markmið og tilgang og svörin við þessum spurningum geta haft áhrif á hluti eins og mögulegar tekjulindir, hvar fyrirtækið staðsetur sig á markaði og hvert rekstrarform fyrirtækisins er, enda á rekstrarformið fyrst og fremst að þjóna markmiðinu. Við sem höldum um stjórnartaumana í Miðeind höfum um nokkurt skeið velt fyrir okkur hvar Miðeind passar inn í landslag íslenskra fyrirtækja og stofnana. Við höfum ekki komist að endanlegri niðurstöðu í þeim efnum en við höfum hins vegar myndað okkur skýra mynd af því hvað Miðeind er (og er ekki!) og hvaða markmiðum við viljum ná. Við höfum alltaf lagt okkur fram um að vera opin og gagnsæ í okkar störfum og í þeim anda langar okkur með þessum pistli að gefa lesendum innsýn í stöðu og tilgang fyrirtækisins.
Á síðustu árum hefur orðið hröð þróun á sviði gervigreindar, einkum þeirri sem byggð er á spunalíkönum (generative models). Ákveðnar grundvallaruppgötvanir á borð við Transformer-tauganet (Google Brain 2017) hafa gert að verkum að nýir möguleikar og ný notkunarsvið hafa opnast.
Gervigreind, með tengingu m.a. í máltækni, margmiðlun og virkni í þrívíðu umhverfi (flæðilínur, sjálfkeyrandi bílar, heimilisþjarkar), mun umbylta alls kyns upplifunum, viðmóti, þjónustu og ákvarðanatöku almennt, bæði í daglegu lífi almennings, í atvinnulífi, í stjórnsýslu og í strategískri stjórnun. Að því gefnu að heimurinn standi á barmi gervigreindarbyltingar - hvað þarf að gera í því hér á Íslandi og hvað er gagnlegast?
Í þessari stöðu eiga í fyrsta lagi að geta falist góð almenn viðskiptatækifæri, á hefðbundnum forsendum slíkra, eins og dæmin sýna frá fyrri byltingum, svo sem tilkomu einkatölvunnar, veraldarvefsins og snjalltækja.
Í öðru lagi er stór samfélagsleg spurning í þessu sambandi hvernig íslenska tungumálinu og íslenskri menningu og menningararfi muni reiða af í kjölfar væntanlegra breytinga. Íslenska er það lítið tungumál að hún er að jafnaði ekki ofarlega á lista hjá stórum tæknifyrirtækjum eða rannsóknaraðilum heimsins sem tungumál til að sinna á markaðslegum forsendum. Og jafnvel þótt forsendur um samfélagsábyrgð væru teknar með í reikninginn þá er mikill fjöldi tungumála sem líklega yrðu þar ofar í forgangsröð en íslenskan, á mælikvarða fjölda málhafa.
Eins og lesendur hafa vafalaust orðið varir við hefur talsverður árangur náðst á síðustu misserum hvað varðar inngildingu íslensku í stærstu risamállíkönum heims. Þá hafa fyrirtæki á borð við Microsoft bætt íslenskustuðningi við einhverjar af gervigreindarvörum sínum. Þessi árangur hefur ekki náðst í tómarúmi heldur liggur þarna að baki mikil vinna og kynningarstarf, sem m.a. hefur verið unnið af Miðeind í sjálfboðastarfi.
Þrátt fyrir tiltölulega góðan árangur hingað til stendur íslenska stærri tungumálum enn langt að baka hvað varðar úrval og gæði máltæknilausna. Ef ekkert er að gert er því líklegt að gervigreindarvirkni sem tengist tungumáli – skrifuðu eða töluðu – verði miklu fyrr aðgengileg á ensku og öðrum helstu tungumálum heldur en íslensku, ef íslenskan verður þá í boði yfirleitt.
Auk tungumálsins sjálfs er íslenskt menningarlegt samhengi undir í þessu efni. Ef stór mál- og margmiðlunarlíkön hafa ekki nægilegan hlutfallslegan aðgang að íslenskri menningararfleifð, til dæmis sögu og sérkennum ýmislegum, mun sú hin sama menning ekki heldur endurspeglast í svörum líkansins og texta og myndefni sem það býr til. Þar sem slík úttök eiga eftir að mynda allstórt hlutfall efnis sem við sjáum á lífsleiðinni, er hætta á að hlutur íslenskra menningarsérkenna dvíni sem því nemur. Deila má um það hversu napurleg sú tilhugsun þykir, en a.m.k. er ekki sjálfgefið að hún sé óhjákvæmileg.
Áðurnefndar áskoranir og þau verkefni sem þarf að vinna innan sviðs íslenskrar máltækni falla í nokkra flokka. Sum verkefni eru í eðli sínu grunnrannsóknir eða gerð grundvallarinnviða, fremur en vöruþróun. Þeirra náttúrulegu heimkynni ættu að vera innan háskóla og rannsóknastofnana, en eftir atvikum þannig að tækniyfirfærsla geti átt sér stað til fyrirtækja.
Hinum megin á regnboganum eru verkefni sem geta vel staðið undir sér á vegum fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Til dæmis er líklegt að næg spurn sé eftir spjallmennum fyrir íslensku til að fjármagna þróun og rekstur slíkrar lausnar og að hún geti þannig verið sjálfbær. Í einhverjum tilvikum getur vantað herslumun til að minnka upphafsáhættu og komast yfir arðsemishjalla, en það bil má brúa með styrkjum á borð við þá sem Tækniþróunarsjóður Rannís og þróunaráætlanir ESB veita.
Þá er til flokkur verkefna sem eiga í eðli sínu að geta verið arðbær sem vörur á samkeppnismarkaði, en þar sem smæð íslenska markaðarins er hindrunin. Dæmi um þetta gætu verið lausnir hliðstæðar Grammarly (málrýni-yfirlestri) fyrir ensku, en sú lausn stendur vel undir sér á alþjóðlegum markaði, meðan reynsla Miðeindar af rekstri Málfríðar og Málstaðar hefur sýnt að, þrátt fyrir að lausnirnar séu vinsælar og lofaðar af notendum fyrir gæði og nytsemi, þá er óvíst að áskriftartekjur einar geti staðið undir þróunar- og rekstrarkostnaði nema drjúgur hluti landsmanna greiði fyrir áskrift.
Enn einn flokkur eru verkefni sem flest geta verið sammála um að séu nauðsynleg, en þar sem erfitt er að finna hreinar markaðsforsendur fyrir þróun og sjálfbærum rekstri. Dæmi um þetta eru lausnir sem þýða sjónvarpsefni, svo sem barnaefni og kvikmyndir, sjálfvirkt. Þar getur þurft að safna saman kröftum einkaaðila og fá jafnframt til liðs sjóði og/eða opinbera aðila sem styrkja verkefnin með samfélagsleg markmið að leiðarljósi.
Loks má nefna almenna uppbyggingu þekkingar á sviði gervigreindar, og dreifingu þeirrar þekkingar til atvinnulífs og stjórnsýslu. Á öðrum Norðurlöndum eru starfræktar sérstakar stofnanir eða einingar sem hafa þetta hlutverk, stundum innan háskóla og stundum í öflugu samstarfi háskóla og atvinnulífs. Dæmi um þetta eru AI Sweden, NorwAI, Alexandra Instituttet og Finnish Center for AI.
Til þess að svara þessari spurningu höfum við útbúið stefnuyfirlýsingu sem við horfum til sem leiðarljóss í öllum ákvörðunum sem teknar eru um rekstur og áherslur Miðeindar. Stefnuyfirlýsinguna má lesa hér.