Fréttir

15. nóvember 2023

Leitar- og spurningarsvörunarlausn sérsniðin að íslensku

Svarkur

Í síðustu viku rúlluðu vinir okkar hjá OpenAI út nýrri, spennandi virkni fyrir GPT-líkön þeirra – Assistant API. Eins og OpenAI sjáum við hjá Miðeind mikla möguleika í sérsniðnum samtalsþjónum sem nálgast upplýsingar úr fyrirliggjandi gagnagrunnum og nota þær til að mynda greinargóð svör á náttúrulegu máli. Þess vegna höfum við unnið síðustu misseri að okkar eigin spennandi lausn sem hlotið hefur nafnið Svarkur og er sérstaklega sniðin að íslensku máli, sérkennum þess og áskorunum. Svarkur notar sérþjálfað greypingalíkan (e. embeddings model) Miðeindar fyrir íslensku til að finna þær upplýsingar í gagnagrunni sem best svara spurningu notanda, og skila þeim á samandregnu og skýru formi. Svarkur er í boði í gegnum forritaskil (e. API) eða sem viðbót við öfluga leitar- og spurningasvörunarlausn samstarfsaðila okkar Cludo, sem jafnframt státar af aðlaðandi viðmóti og háþróuðum greiningartólum.

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu höfum við sett saman stutt myndband, byggt á innanhússútgáfu Svarks, til að sýna getu verkfærisins og gefa innsýn í það sem koma skal.

14. nóvember 2023

Mállíkanið GPT-4 frá OpenAI mun betra í íslensku með hjálp Miðeindar

Miðeind og OpenAI

Máltæknifyrirtækið Miðeind kemur við sögu í nýrri bloggfærslu frá OpenAI (sjá https://openai.com/blog/data-partnerships). Tilefnið er að sérvalið íslenskt gagnasafn hefur verið fellt inn í GPT-4 Turbo, nýjasta gervigreindar-líkanið í GPT-fjölskyldunni. Hið endurbætta líkan sýnir mikla framför í að mynda íslenskan texta, bæði hvað varðar málfræði og almenna þjálni.

Sem hluti af vinnunni við verkefnið útbjó Miðeind mælipróf sem metur getu stórra mállíkana til að beygja íslenska nafnliði (sambeygð lýsingarorð og nafnorð) rétt, en fyrri kynslóðir líkana hafa átt í erfiðleikum með það verkefni. Niðurstöðurnar eru mjög hvetjandi: Þegar litið er til algengari orða, beygir GPT-4 Turbo heil beygingardæmi (þ.e.a.s. öll föll í eintölu og fleirtölu) villulaust í 66% tilvika, samanborið við 25% nákvæmni hjá eldra líkaninu sem kom út í mars sl.

Að sögn Lindu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra Miðeindar, hefur fyrirtækið átt í farsælu samstarfi við OpenAI sem hófst í kjölfar heimsóknar Forseta Íslands, ráðherra og sendinefndar til höfuðstöðva fyrirtækisins í San Francisco á síðasta ári, en þar var Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar, með í för.

„OpenAI er brautryðjandi á sviði risamállíkana og gervigreindar. Í þessu samstarfi Miðeindar og OpenAI felst einstakt tækifæri til þess að auka veg íslenskrar máltækni. Það er gaman að sjá hvað þetta stórfyrirtæki hefur mikinn áhuga á málstað lítilla tungumála og við höfum í sameiningu lagt hart að okkur til þess að ná þessum árangri. Samstarfið heldur áfram og við stefnum enn hærra varðandi árangurinn.“

Húrra fyrir íslenskunni og gleðilega viku íslenskrar tungu!

8. nóvember 2023

Miðeind og Háskóli Íslands hljóta stóran Evrópustyrk til gervigreindarverkefnis

English here.

Háskóli Íslands og Miðeind ehf. hafa hlotið styrk úr Horizon-rannsóknaáætlun Evrópusambandsins, til verkefnis er lýtur að gerð stórs gervigreindar-mállíkans fyrir germönsk tungumál, þar á meðal íslensku.

Verkefnið nefnist TrustLLM og er unnið í samstarfi 11 aðila víðs vegar í Norður-Evrópu. Að því koma meðal annars Linköping-háskóli og AI Sweden í Svíþjóð, þýska Fraunhofer-rannsóknastofnunin, Alexandra Instituttet í Danmörku, Tækni- og náttúruvísindaháskóli Noregs (NTNU), Jülich-ofurtölvumiðstöðin og TNO rannsóknastofnunin í Hollandi.

Heildarstyrkur til verkefnisins nemur sjö milljónum evra (rétt rúmum milljarði króna), en hlutur Miðeindar og HÍ er um það bil fimmtungur af þeirri upphæð. Verkefnið hófst formlega 1. nóvember sl. og mun taka þrjú ár.

Markmið TrustLLM er að smíða mállíkan (sbr. t.d. GPT-líkönin frá OpenAI) sem styður germönsk tungumál og þá ekki síst minni tungumálin í því mengi. Rannsakaðar verða aðferðir til að ná hámarksfærni í hverju tungumáli þrátt fyrir takmarkað magn þjálfunargagna. Þá verður sérstök áhersla lögð á traust og trúverðugleika úttaks úr mállíkaninu, og lágmörkun hvers kyns bjaga og óæskilegra svara úr því. Reiknifræðilegar aðferðir verða þróaðar til að lágmarka orkunotkun við þjálfun og notkun mállíkana.

„Það er ómetanleg lyftistöng fyrir íslenska máltækni og gervigreind á íslensku að fá svona öflugan styrk úr Horizon áætluninni. Styrkurinn er vitaskuld kærkominn sem slíkur, en svo ekki síður þau sambönd sem þarna verða til og samstarfið við margt af leiðandi tæknifólki og rannsakendum Evrópu á þessu hraðvaxandi sviði, sem við hlökkum til og væntum mikils af,“ segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar.

„Við hjá Háskóla Íslands erum stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga samstarfsverkefni á sviði gervigreindar. Þróun mállíkana fyrir minni mál eins og íslensku er mikilvægur þáttur í að tryggja að tungumálið lifi áfram og þróist í takt við tæknina í stafrænum heimi. Með þátttöku okkar í TrustLLM-verkefninu stöndum við vörð um íslenskuna og hjálpum til við að þróa tækni sem mun nýtast komandi kynslóðum. Verkefnið mun einnig styrkja tengsl Háskólans við fyrirtæki og rannsakendur í fremstu röð í Evrópu, sem mun efla íslenskuna enn frekar á alþjóðavettvangi,“ segir Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, sem kemur að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands ásamt Morris Riedel, prófessor í sömu grein.

14. október 2023

Miðeind ræður tæknistjóra

Þorvaldur Páll Helgason

Þorvaldur Páll Helgason hefur gengið til liðs við Miðeind, hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Hann tekur við starfi tæknistjóra (CTO) og hefur yfirumsjón með tækni- og vöruþróun fyrirtækisins.

Þorvaldur starfaði áður í Bretlandi, síðast hjá Apple að máltækniþróun Siri sem stjórnandi gervigreindarteymis. Hann er með MSc-gráðu í gervigreind frá Edinborgarháskóla ásamt BSc-gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er mikill fengur að því fyrir Miðeind og íslenska máltækni að fá Þorvald til liðs við okkur“, segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar. „Reynsla hans frá Apple og þekking á notkun gervigreindar, meðal annars á sviði talgreiningar og fyrirspurnakerfa, nýtist okkur við þá hröðu vöruþróun sem framundan er.“

Að auki hefur Kári Steinn Aðalsteinsson bæst við starfsmannahóp Miðeindar sem almennur forritari með sérstaka áherslu á notendaupplifun og vefforritun.

Miðeind hefur frá árinu 2015 unnið að gerð hugbúnaðar á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Meðal vara fyrirtækisins eru snjall-aðstoðar-appið Embla, málrýni-verkfærið Yfirlestur.is, þýðingarvélin Vélþýðing.is og krossgátu-appið Explo. Miðeind hefur verið stór þátttakandi í máltækniáætlun stjórnvalda og vinnur nú að ýmsum tengdum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum. Þá hefur fyrirtækið unnið með OpenAI að íslenskustuðningi í gervigreindarlíkaninu GPT-4.

27. september 2023

Miðeind og Cludo í samstarf um að bjóða fyrstu gervigreindar-knúnu leitarlausnina fyrir íslenskar vefsíður

Miðeind, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku, kynnir í dag samstarf við danska fyrirtækið Cludo, sem sérhæfir sig í nýstárlegum vefleitarlausnum. Með samstarfinu verður unnt að bjóða almenningi mun öflugri og nákvæmari leitarvirkni á íslenskum vefsíðum en áður.

Samstarf fyrirtækjanna tveggja sameinar öfluga leitartækni Cludo og sérfræðiþekkingu Miðeindar á íslensku og gervigreind. Úr verður leitar- og spurningasvörunarlausn, sérhönnuð fyrir íslensku, þar sem stuðst er við merkingu leitarstrengs fremur en yfirborðsform.

„Samstarf okkar við Cludo gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar upp á vefleitarlausn sem sem hefur ekki áður verið í boði á íslenskum markaði,“ segir Linda Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Miðeindar. „Okkur finnst mjög spennandi að samtvinna okkar máltækni við slípað viðmót og margreyndan leitarþjón Cludo, sem býður m.a. upp á alls kyns greiningartól. Varan okkar er alhliða lausn fyrir notendur, bæði fyrir hefðbundna leit og spurningasvörun knúna af gervigreind.“

„Síðan 2015 höfum við unnið með viðskiptavinum okkar að því að hanna nýstárlega vefleit sem bætir upplifun notenda. Við höfum bætt við gervigreindarlausnum fyrir viðskiptavini okkar úti um allan heim og við erum mjög spennt að nýta okkur sérfræðiþekkingu Miðeindar til þess að geta nú boðið íslenskum notendum okkar upp á sambærilega leitarlausn og er í boði hjá Cludo á mörgum öðrum tungumálum,“ segir Nick Wassenberg, framkvæmdastjóri Cludo. „Svona bylting á þjónustu – sem er sérlega mikilvæg fyrir vefsíður sem innihalda mikið magn upplýsinga, svo sem þær sem tengjast menntun, stjórnsýslu, ferðamennsku og bankaþjónustu – er aðeins möguleg í samstarfi við innlenda aðila sem skilja þær sérstöku áskoranir sem felast í máltækni fyrir íslenska tungumálið.“

Það er til mikils að vinna fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir að innleiða þessa tækninýjung sem býður m.a. upp á:

  • Öfluga og notendavæna vefleit sem bætir til muna upplifun vefsíðugesta
  • Nútímalega máltæknilausn með gervigreind sem eykur nákvæmni leitarniðurstaðna með því að leita eftir merkingu í stað lykilorða
  • Fágað greiningartól sem gerir eigendum vefsíðna m.a. kleift að skilja betur hegðun notenda og að finna hvar upplýsingum á vefsíðu er ábótavant
  • Aðstoð frá íslenskum þjónustufulltrúum hjá Cludo sem hjálpa fyrirtækjum að fá sem mest út úr leitarlausninni

24. ágúst 2023

Miðeind fær nýja stjórn

Hjálmar Gíslason, Kristín Pétursdóttir, Linda Heimisdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson

Hjálmar Gíslason og Kristín Pétursdóttir hafa tekið sæti í stjórn Miðeindar ehf., hugbúnaðarfyrirtækis sem vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Þau mynda þriggja manna stjórn fyrirtækisins ásamt Vilhjálmi Þorsteinssyni stjórnarformanni og stofnanda Miðeindar. Linda Heimisdóttir hefur tekið við af Vilhjálmi sem framkvæmdastjóri Miðeindar, en hann starfar áfram hjá fyrirtækinu við vöruþróun og stefnumótun.

Hjálmar Gíslason er stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins GRID. Hjálmar starfaði áður sem yfirmaður vörustjórnunar hjá Qlik í Boston. Hann stofnaði fyrirtækið DataMarket árið 2008, sem var selt til Qlik árið 2014. Hjálmar er gegnheill gagnanörður og raðfrumkvöðull, en GRID er fimmta sprotafyrirtækið sem hann stofnar á ferlinum. Íslensk máltækni er Hjálmari ekki með öllu ókunnug, en hann smíðaði m.a. leitarvélina Emblu fyrir mbl.is á sínum tíma og aðstoðaði við stafræna útgáfu Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls hjá Árnastofnun.

Kristín Pétursdóttir er hagfræðingur að mennt. Hún hefur áratuga stjórnunarreynslu úr fjármálageiranum þar sem hún var m.a framkvæmdastjóri fjárstýringar í Kaupþingi, aðstoðarforstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, annar stofnenda og forstjóri Auðar Capital, og stjórnarformaður Kviku Banka auk þess sem hún var um tíma forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins InfoMentor. Hún hefur setið setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs, og í fjárfestingaráðum framtakssjóða. Síðustu ár hefur Kristín starfað sem stjórnunarráðgjafi og situr m.a. í stjórnum Arion banka og GRID.

Linda Heimisdóttir er með MA og PhD gráður í málvísindum frá Cornell háskóla og BA gráðu í íslensku, með latínu sem undirgrein. Linda hefur áralanga reynslu úr máltæknigeiranum en undanfarin ár starfaði hún hjá alþjóðlega fyrirtækinu Appen, sem sérhæfir sig í söfnun og merkingu gagna fyrir máltækni og gervigreind. Linda gegndi ýmsum störfum hjá Appen, nú síðast sem verkefnastofustjóri (e. Program Manager) á sviði máltækniverkefna. Linda gekk til liðs við Miðeind í byrjun árs 2023, þá sem rekstrarstjóri fyrirtækisins.

„Framundan eru stór tækifæri og miklar áskoranir á sviði máltækni og gervigreindar enda er þróunin geysihröð á þessu spennandi sviði. Miðeind hefur nú fengið til liðs við sig sannkallað draumateymi til að móta stefnu og sækja fram, á grunni reynslu og þekkingar sem við höfum aflað í starfi okkar síðastliðin 8 ár. Ég hefði ekki getað hugsað mér öflugri liðsauka og betri liðsfélaga í sókninni en þau Hjálmar, Kristínu og Lindu,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar.

Miðeind hefur frá árinu 2015 unnið að þróun hugbúnaðar á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Meðal vara fyrirtækisins eru snjall-aðstoðar-appið Embla, málrýni-verkfærið Yfirlestur.is, þýðingarvélin Vélþýðing.is og krossgátu-appið Explo. Miðeind hefur verið stór þátttakandi í máltækniáætlun stjórnvalda og vinnur nú að ýmsum tengdum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum. Þá hefur fyrirtækið unnið með OpenAI að íslenskustuðningi í gervigreindarlíkaninu GPT-4.

5. júní 2023

Linda Heimisdóttir nýr framkvæmdastjóri Miðeindar

Linda Heimisdóttir

Linda Heimisdóttir tók við framkvæmdastjórn Miðeindar 1. júní síðastliðinn. Linda er með MA og PhD gráður í málvísindum frá Cornell háskóla og BA gráðu í íslensku, með latínu sem undirgrein. Hún hefur áralanga reynslu úr máltæknigeiranum en undanfarin ár hefur hún starfað hjá alþjóðlega fyrirtækinu Appen, sem sérhæfir sig í söfnun og merkingu gagna fyrir máltækni og gervigreind. Linda gegndi ýmsum störfum hjá Appen, nú síðast sem verkefnastofnstjóri (e. Program Manager) á sviði máltækniverkefna. Linda gekk til liðs við Miðeind í byrjun árs 2023, þá sem rekstrarstjóri fyrirtækisins.

Á þeim mánuðum sem Linda hefur starfað hjá Miðeind hefur hún sýnt af sér framúrskarandi dugnað og metnað fyrir öllum verkefnum fyrirtækisins. Hún hefur notað tímann til að kynnast viðskiptavinum og samstarfsaðilum, setja sig vel inn í öll yfirstandandi verkefni, hrinda af stað nýjum verkefnum og móta af fagmennsku og öryggi nýja ferla innan fyrirtækisins. Við erum himinlifandi með nýjan framkvæmdastjóra og hlökkum til að njóta krafta hennar.

14. mars 2023

Miðeind í samstarfi við OpenAI um GPT-4

Bandaríska fyrirtækið OpenAI hefur verið ofarlega á baugi upp á síðkastið sem útgefandi nýstárlegra gervigreindarlausna á borð við DALL·E og ChatGPT sem slegið hafa í gegn hjá milljónum notenda um allan heim. Glöggir notendur á Íslandi hafa tekið eftir því að spjallmennið ChatGPT kann ýmislegt fyrir sér í íslensku þrátt fyrir að hafa aðeins verið markvisst þjálfað í ensku. Við þróun nýjustu afurðar sinnar, GPT-4, sem kynnt er í dag, hefur OpenAI hins vegar í fyrsta skipti gert tilraunir með sérstaka þjálfun risamállíkans síns á öðru tungumáli en ensku, og þar varð íslenska fyrir valinu.

Hér hefur íslenska máltæknifyrirtækið Miðeind gegnt lykilhlutverki en samstarf Miðeindar og OpenAI hófst í kjölfar heimsóknar forseta Íslands og sendinefndar til höfuðstöðva OpenAI í San Francisco í maí síðastliðnum. Fyrsti áfangi samstarfsverkefnisins sneri að því að kenna fyrri kynslóð GPT mállíkansins íslensku (svokölluð „fínþjálfun“) og að meta hversu mikið af textagögnum þyrfti til að ná því markmiði.

Þegar undirbúningur næstu kynslóðar GPT líkansins, þ.e. GPT-4, fór á skrið sl. haust leitaði OpenAI til Miðeindar um að taka þátt í þjálfun þessa nýjasta líkans sem er mun stærra og öflugra en fyrirrennarinn. Þar var um að ræða svokallaða styrktarþjálfun með mannlegri endurgjöf (e. Reinforcement Learning - Human Feedback) en þessi tegund þjálfunar er nauðsynleg til að kenna mállíkani að skilja spurningar og verkefni og svara þeim rétt og vel.

Miðeind safnaði saman hópi næstum 40 sjálfboðaliða hérlendis sem fengu það verkefni að útbúa spurningar og verkefni á íslensku fyrir GPT-4, og síðan að meta svör líkansins, gefa þeim einkunnir og kenna því hvernig það gæti svarað enn betur. Þessi gögn voru að því loknu notuð í þjálfun GPT-4 og urðu til þess að líkanið tók mælanlegum framförum í íslensku.

Verkefninu er þó hvergi nærri lokið því ljóst er að töluvert meiri þjálfun þarf til að gera líkanið fullfært í tungumáli okkar eyjarskeggja. Líkanið skilur vel spurningar og verkefni og stendur sig nú þegar mjög vel í mörgu, svo sem samantekt texta, viðhorfsgreiningu og þýðingu yfir á önnur tungumál, en gerir enn málfræði- og orðalagsvillur þegar það er beðið að skrifa lengri samfelldan texta á íslensku.

Miðeind hefur frá árinu 2015 unnið að þróun hugbúnaðar á sviði máltækni og gervigreindar fyrir íslensku. Miðeind hefur kynnt til sögu nokkrar vörur á sviði máltækni, svo sem snjall-aðstoðar-appið Emblu, málrýnina Yfirlestur.is og þýðingarvélina Vélþýðingu.is, ásamt því að taka þátt í máltækniáætlun stjórnvalda og vinna að ýmsum verkefnum með íslenskum fyrirtækjum. Miðeind er umhugað um að máltæknibúnaður sé almennt opinn og aðgengilegur sem flestum og var stofnuð fyrst og fremst til þess að vinna að bættum hag íslenskunnar í stafrænum heimi. Hjá fyrirtækinu starfa 12 sérfræðingar með fjölbreyttan bakgrunn.

Fyrirtækin tvö, Miðeind og OpenAI, eiga það sameiginlegt að hafa lagt mikla áherslu á að þróa gervigreind með ábyrgum hætti og þannig að sem flest njóti ávinnings af henni. Vonir standa til að áframhaldandi samstarf fyrirtækjanna tveggja muni leiða til þess að íslenska tungumálið standi jafnfætis stærri tungumálum í gervigreindarlíkönum á borð við GPT-4. Þá er hugmyndin að þetta tilraunaverkefni verði nýtt sem sniðmát fyrir önnur smærri tungumál svo þau fái notið sömu tækifæra.

Gervigreind mun líklega verða einn helsti drifkraftur framleiðniaukningar og nýsköpunar á næstu árum og áratugum. Ein helsta áskorun gervigreindarbyltingarinnar er að tryggja að tæknin sé aðgengileg fyrir alla og að ekki skapist gjá á milli þeirra sem hafa aðgang að henni og þeirra sem hafa hann ekki (e. AI Divide). Þar skiptir stuðningur við tungumál heims lykilmáli. Þá þarf að þróa tæknina þannig að hún sé örugg, þjóni hagsmunum mannkyns og festi ekki bjaga, mismunun eða ójöfnuð í sessi.

Miðeind hlakkar til að halda áfram nánu og góðu samstarfi við OpenAI og að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar á öld gervigreindar.

14. mars 2023

Umfjöllun í innlendum fjölmiðlum

Útgáfa GPT-4 og samstarf OpenAI og Miðeindar hefur ratað í fjölmiðla víða um heim, þar á meðal á Íslandi.

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um samstarf OpenAI og Miðeindar á vef sínum í dag. Í fréttinni má finna viðtal við Vilhjálm Þorsteinsson, stofnanda og eiganda Miðeindar og Kötlu Ásgeirsdóttur, viðskiptaþróunarstjóra Miðeindar, um nýjustu vendingar.

Samstarfið kom við sögu í kvöldfréttum RÚV, þar sem meðal annars var rætt við Vilhjálm Þorsteinsson. Í kjölfarið birtist frétt sama efnis á vef RÚV.

Vísir gerir samstarfinu og tækifærum í kjölfar þess góð skil á vef sínum í dag.

23. febrúar 2023

67. kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í 67. skiptið í höfuðstöðvum Sþ í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár er á nýsköpun og tækni og hvernig hún getur nýst í þágu jafnréttis. UN Women á Íslandi tók viðtal við Kötlu Ásgeirsdóttur, viðskiptaþróunarstjóra Miðeindar um málefnið.

15. febrúar 2023

Fyrirlestur á UTmessunni 2023

Svanhvít-UTmessa

Sérfræðingar Miðeindar í máltækni hafa undanfarið tæpt ár unnið í tauganeti sem leiðréttir texta með því að „þýða“ hann yfir í læsilegra mál. Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir fjallaði um tæknina og möguleika hennar á UTmessunni fyrr í þessum mánuði. Endilega kynnið ykkur frumútgáfu þessa hagnýta og spennandi tóls á ai.yfirlestur.is.

18. janúar 2023

Miðeind fær nýjan rekstrarstjóra

Linda Heimisdóttir

Um áramótin urðu þær fregnir að Linda Heimisdóttir gekk til liðs við Miðeind sem rekstrarstjóri (COO). Linda er doktor í málvísindum frá Cornell háskóla og hefur undanfarin ár unnið hjá alþjóðlega máltæknifyrirtækinu Appen sem vörustjóri (Program Manager). Hún byrjar í fjarvinnu frá Oregon-ríki í Bandaríkjunum, en kemur til liðs við skrifstofuna okkar í Reykjavík í júní nk. Það er mikill fengur að því að fá Lindu í hópinn okkar; hún mun tvíefla sókn Miðeindar á sviði máltækni og gervigreindar og styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar sem leiðtoga á þessu spennandi og hraðvaxandi sviði.

16. nóvember 2022

Embla fær nýja rödd

Dagur íslenskrar tungu

Í dag, á degi íslenskrar tungu, skiptir Embla um rödd (eða réttara sagt raddir). Nýju raddirnar eru unnar úr gögnum sem safnað var undir máltækniáætlun ríkisins. Til hamingju með daginn öll!