Um Miðeind

Miðeind er leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki
á sviði máltækni og gervigreindar

Miðeind

Miðeind vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Tæknin okkar gerir kleift að vinna með íslenskan texta og talmál í tölvum, símum og öðrum tækjum. Meðal annars má nota hana til að vinna upplýsingar upp úr texta, lesa yfir stafsetningu og málfar, þýða texta milli íslensku og annarra tungumála, svara spurningum, búa til samantektir o.m.fl.
Hugbúnaður Miðeindar er opinn og nýtist almenningi, atvinnulífi og rannsakendum.

Merki okkar og annað myndefni má finna hér.

Á íslensku má alltaf
finna svar

Á Íslensku má alltaf finna svar

Máltækni og gervigreind

Á heimsvísu fleygir máltækni og gervigreind hratt fram um þessar mundir. Með tilkomu djúpra tauganeta (deep neural networks) og öðrum framförum í greininni hafa opnast nýir möguleikar til að vinna með texta og tal í tölvum. Meðal annars er nú mun auðveldara en áður að breyta tali í texta, að breyta texta í tal, að þýða texta milli tungumála, að búa til samantektir úr texta, að svara spurningum upp úr texta, og eiga samræðu við spjallmenni (chatbots), svo fátt eitt sé nefnt.

Þróunin hefur verið hröðust fyrir stærstu tungumál heims, svo sem ensku, kínversku, frönsku og þýsku. Minni tungumálin sitja hins vegar eftir nema þeim sé sinnt meðvitað og sérstaklega. Stóru upplýsingatæknifyrirtækin, þar á meðal Google, Meta/Facebook, Amazon, Microsoft, Apple og Baidu, keppast nú um að fella máltækni og gervigreind inn í vörur sínar og þjónustu. Mjög er þó misjafnt hvort tungumál á borð við íslensku séu studd og þá hversu vel.

Íslenskan á við ramman reip að draga í þessari þróun á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er íslenski markaðurinn lítill, enda fáir sem tala tungumálið. Í öðru lagi, og þar af leiðandi, er ekki til mikið af textagögnum á íslensku, til dæmis samhliða gögnum þar sem sami texti liggur fyrir á íslensku og öðrum tungumálum. Í þriðja lagi er íslensk málfræði fremur flókin viðureignar, orðaforðinn stór og beygingarmyndir margar. Allt þetta kallar á að Íslendingar sjálfir leggist á árar við að styðja og efla tungumálið á þessu sviði, á sem opnastan hátt þannig að allir geti notið, og þá bæði innlendir og erlendir aðilar.

Miðeind vill leggja lóð á vogarskálarnar fyrir hönd íslenskunnar. Það gerum við með rannsóknum og vöruþróun, í því augnamiði að íslenskir málnotendur fái notið þeirra þæginda og þeirra möguleika sem hin nýja tækni býður upp á.

Skreyting
Skreyting

Teymið

Hjá Miðeind starfar þéttur, öflugur og fjölbreyttur hópur fólks með brennandi áhuga á máltækni og gervigreind. Við segjum stundum að við störfum á mörkum rannsókna og hagnýtingar, og þar er gaman að vera. Við reynum að hafa vinnuumhverfið frjótt og skapandi, og leitum að jafnvægi milli einbeitingar og afkasta annars vegar og afslappaðs andrúmslofts hins vegar. Yfirbyggingu og flækjustigi hvers konar, svo sem fundahöldum, er haldið í lágmarki og boðleiðir eru eins stuttar og kostur er. Vinnutími er sveigjanlegur og vinnuaðstaða fyrsta flokks; þar á meðal er eitthvert besta sjávarútsýni sem völ er á í borginni.

Vilhjálmur Þorsteinsson

Vilhjálmur Þorsteinsson

Vilhjálmur er stofnandi og eigandi Miðeindar. Hann hefur verið viðloðandi íslenska upplýsingatækni vel á fjórða áratug. Hann stofnaði sitt fyrsta sprotafyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga sínum. Síðan þá hefur hann komið víða við á upplýsingatæknisviðinu, bæði innanlands og erlendis. Hann hefur m.a. verið stjórnarformaður leikjafyrirtækisins CCP og gagnaversins Verne, og stjórnarmaður í Kögun, Íslandssíma, Og Vodafone, Skýrr, Opnum kerfum, Hands ASA, Auði Capital, Virðingu og Kjarnanum miðlum. Þá hefur hann starfað sem hugbúnaðarhönnuður hjá CODA Group plc og Baan NV. Vilhjálmur hefur einnig fengist við ýmislegt annað í gegnum tíðina, meðal annars portrettmálun, og var einn af 25 þjóðkjörnum fulltrúum sem sátu í Stjórnlagaráði.

Linda Heimisdóttir

Linda Heimisdóttir

Linda er framkvæmdastjóri (CEO) Miðeindar og sinnir ýmsum verkefnum sem lúta að rekstri og stjórnun fyrirtækisins. Hún er með MA og PhD gráður í málvísindum frá Cornell-háskóla og BA gráðu í íslensku, með latínu sem undirgrein. Linda kom til Miðeindar frá Bandaríkjunum þar sem hún starfaði um árabil við verkefnastjórnun í máltæknigeiranum. Hún er mikill aðdáandi hlaðvarpa og nýtir hvert tækifæri til þess að hlusta á eitthvað fróðlegt. Henni finnst líka gaman að lesa og spila tennis.

Þorvaldur Páll Helgason

Þorvaldur Páll Helgason

Þorvaldur er tæknistjóri (CTO) Miðeindar og hefur yfirumsjón með tækni- og vöruþróun fyrirtækisins. Hann starfaði áður í Bretlandi, síðast hjá Apple að máltækniþróun Siri sem stjórnandi gervigreindarteymis. Þorvaldur hefur MSc gráðu í gervigreind frá Edinborgarháskóla ásamt BSc gráðu í tölvunarfræði. Honum finnst fátt betra en að njóta náttúrunnar á Íslandi og spila gott borðspil.

Elías Bjartur Einarsson

Elías Bjartur Einarsson

Elías Bjartur starfar í gervigreindarteymi Miðeindar og kemur þar víða við. Hann er með BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands og er kominn langleiðina að MSc-gráðu í tölvunarfræði. Elías Bjartur stundar klifur, gólfglímu og útivist af miklu kappi og hefur meðal annars unnið sem landvörður og athafnastjóri.

Garðar Ingvarsson Juto

Garðar Ingvarsson Juto

Garðar starfar sem rannsakandi innan gervigreindarteymis Miðeindar. Hann er með MSc-gráðu í reiknitölfræði og vélnámi frá UCL og BA-gráðu í tölvunarfræði frá Cambridge-háskóla. Garðar er mikill grúskari og einnig sérlegur áhugamaður um hlutverkaleiki.

Haukur Barri Símonarson

Haukur Barri Símonarson

Haukur Barri er sérfræðingurinn okkar (og þótt víðar væri leitað) í djúpum tauganetum og gervigreind. Það er varla til sú markverða vísindagrein á því sviði sem hann hefur ekki lesið og skilið. Haukur Barri er með BSc gráðu í tölvunarfræði, reiknifræðilínu, og vinnur að mastersgráðu í hjáverkum.

Haukur Páll Jónsson

Haukur Páll Jónsson

Haukur Páll er sérfræðingur í gervigreindarteymi Miðeindar. Hann er með mastersgráðu í rök- og reiknifræði frá Amsterdam-háskóla, BSc gráðu í tölvunarfræði og BA í heimspeki. Hann er einnig áhugamaður um rafíþróttir og klifur.

Hulda Óladóttir

Hulda Óladóttir

Hulda er verkefnastjóri ásamt því að taka þátt í verkefnum á sviði málrýni og stoðtóla. Hún sameinar kunnáttu í forritun og djúpa þekkingu á íslenskri málfræði og stafsetningu, enda er hún fyrrverandi prófarkalesari. Hulda er með BA gráðu í almennum málvísindum og MA gráðu í máltækni, auk þess að vera liðtæk í verkefnastjórn.

Katla Ásgeirsdóttir

Katla Ásgeirsdóttir

Katla sér meðal annars um markaðs- og viðskiptaþróunarmál Miðeindar og að halda hlutunum almennt gangandi. Samningatækni hennar er viðbrugðið, og tónlistarsmekk, enda er hún vinsæll plötusnúður. Katla er með BA gráðu í trúarbragðafræðum.

Kári Steinn Aðalsteinsson

Kári Steinn Aðalsteinsson

Kári Steinn er hugbúnaðarsmiður með sérstakan áhuga á notendaupplifun og vefforritun. Hann er með MSc gráðu í gagnvirkri margmiðlunartækni (e. interactive media technology) frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi og BSc gráðu í hugbúnaðarverkfræði. Kári er mikill áhugamaður um íþróttir, tónlist, borðspil og tölvuleiki.

Pétur Orri Ragnarsson

Pétur Orri Ragnarsson

Pétur Orri leggur lóð á vogarskálarnar í vélþýðingar- og gervigreindarteymi okkar. Hann kom til Miðeindar frá Marel þar sem hann sá m.a. um innanhúss-útgáfur GNU/Linux stýrikerfisins. Pétur er með MSc gráðu í tölvunarfræði og BSc í stærðfræði.

Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir

Svanhvít Lilja Ingólfsdóttir

Svanhvít Lilja er sérfræðingur í gervigreindarteyminu okkar. Hún er með MA-gráðu í þýðingafræði og hefur meðal annars starfað sem þýðandi og prófarkalesari. Svanhvít er líka með BSc-gráðu í tölvunarfræði og MSc-gráðu í máltækni, talar reiprennandi spænsku og er öflugur skraflari.

Sveinbjörn Þórðarson

Sveinbjörn Þórðarson

Sveinbjörn er fjölhæfur forritunarsnillingur sem er m.a. heilinn á bak við Emblu, radd-appið okkar. Það gerist aldrei að komið sé að tómum kofanum hjá honum. Sveinbjörn er sjálflærður hugbúnaðarsmiður með MSc gráðu í heimspeki og MSc gráðu í sagnfræði.

Þórunn Arnardóttir

Þórunn Arnardóttir

Þórunn vinnur að samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og Miðeindar sem snýr að þróun málrýnihugbúnaðar. Hún er með BA-gráðu í almennum málvísindum og MA-gráðu í máltækni. Þórunn var m.a. um skeið verkefnisstjóri máltækniáætlunar stjórnvalda. Hún hefur áhuga á öllu sem tengist útivist, arkitektúr og tennis.