Textavinnsla
Textavinnsla

Hvaða upplýsingar má finna í textanum?

Í starfsemi fyrirtækja er unnið með mikið magn skjala, tölvupósta og annars textaefnis, þ. á m. ytri gögn, svo sem frá frétta- og upplýsingaveitum.

Textaefnið getur verið á fleiri tungumálum en íslensku. Með gervigreind Miðeindar er hægt að flokka og vinna textaefni sjálfvirkt með ýmsum hætti og í margvíslegum tilgangi.

Viðhorfsgreining

Hægt er að greina hvort tölvupóstur, spjall í ráðgjafaveri, inntak í spjallmenni eða annað efni er t.d. jákvætt eða neikvætt, og gefa því einkunn á þeim skala, svo sem frá -1.0 til +1.0. Út frá því er hægt að forgangsraða pósti og spjalli til að höndla mest áríðandi málin sem fyrst og senda þau á rétta viðtakendur. Mælingarnar geta jafnframt nýst við að mæla ánægju viðskiptavina.

Textavinnsla

Efnisflokkun

Með því að skoða innihald er hægt er að komast að því með sjálfvirkum hætti hvaða efnisflokki tiltekið skjal eða fyrirspurn tilheyrir, svo sem útlánum til neytenda, erlendum viðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf eða öðru, og einfalda þannig skjalavinnslu. Einnig er hægt að greina tungumál texta.

Nafnagreining

Greina má nöfn einstaklinga, fyrirtækja og staðsetningar með sjálfvirkum hætti í texta. Með þessu móti er hægt að bæta efnisháðum lýsigögnum (e. metadata) við skjöl, svo sem hvaða lögaðilar, kennitölur, mannanöfn eða heimilisföng koma fyrir í skjali, óháð fallbeygingu. Að sama skapi er unnt að hreinsa persónugreinanlegar upplýsingar sjálfvirkt úr skjölum, svo sem nöfn, kennitölur og heimilisföng (e. anonymization).

Textavinnsla

Textaleit og spurningasvörun

Gervigreind Miðeindar finnur nálina í heystakknum og skilar á skotstundu þeim skjölum sem líklegust eru til að innihalda svar, ásamt því að merkja inn staðsetningu svarsins í hverju skjali. Notandi getur þá fengið svar við eðlilega orðaðri fyrirspurn beint ásamt upplýsingum um hvar það er að finna í samhengi, sér til frekari glöggvunar.

Virknin getur gagnast viðskiptavinum við leit á heimasíðu eða í samskiptum við spjallmenni, í þjónustuveri til að svara spurningum viðskiptavina, eða í innri gagnavinnslu fyrirtækja og stofnana.

Einföldun texta

Mikilvægt er að koma efni til viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila á sem skiljanlegastan máta. Einnig skiptir máli ef textinn á erindi við börn eða aðra hópa sem hafa ekki fullt vald á tungunni að textinn miði við getustig hópsins.

Til er tækni til að „þýða“ texta úr erfiðara formi yfir í einfaldara málsnið (e. text simplification). Miðeind hefur tök á að smíða slíka „þýðingarvél“ fyrir íslensku. Slík tækni myndi nýtast þeim sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með að tileinka sér flóknari texta, svo sem lesblindum.

Textavinnsla

Textamyndun

Stór hluti þess efnis sem verður til innan fyrirtækja er á stöðluðu sniði. Svör við fyrirspurnum, sjálfvirka pósta tölvukerfa, eyðublöð, samninga o.þ.h. er hægt að fylla út að hluta eða öllu leyti sjálfvirkt (e. auto-fill/auto-complete), með hjálp mállíkans þannig að myndaður texti sé málfræðilega réttur og í eðlilegu samhengi, efnislega og málfræðilega.

Hægt er að nota gervigreind Miðeindar til að fylla sjálfkrafa út í texta í sniðmátum annars vegar og hins vegar til að mynda texta frá grunni með tauganetum að gefnum lykilupplýsingum. Sem dæmi má nefna að al- eða hálf-staðlaða samninga má mynda eða fylla út sjálfkrafa þannig að í mörgum tilvikum þurfi aðeins mannlega lokayfirferð.