Krossgátuleikurinn Explo

Krossgátuleikurinn Explo

Hefurðu gaman af krossgátum, heilabrotum og góðlátlegri keppni við vini og vandamenn? Finnst þér íslenskan skemmtileg og vilt auka við orðaforðann? Þá er Explo fyrir þig.

Explo má spila á íslensku, ensku (breskri og bandarískri), pólsku og norsku, og fleiri tungumál eru í farvatninu.

Explo er án auglýsinga og leikinn má sækja og spila ókeypis í App Store og Play Store. Með áskrift fyrir lága mánaðarlega fjárhæð má opna fyrir alla möguleika leiksins, spila ótakmarkaðan fjölda viðureigna samtímis og skora á erfiðari þjarka, svo nokkuð sé nefnt.

Explo

Explo er krossgátuleikur (app) fyrir snjallsíma og spjaldtölvur (iOS og Android). Hann byggir á Netskraflinu sem notið hefur vaxandi vinsælda í næstum áratug, og sem tíundi hver Íslendingur hefur einhvern tíma prófað. Í Explo er hægt að skrafla við fólk eða miserfiða þjarka, án tímatakmarkana eða í tímaleikjum sem koma adrenalíninu af stað. Leikmenn safna Elo-stigum sem gefa styrkleika til kynna, og því er auðvelt að finna sér andstæðinga á svipuðu getustigi.

Nánar má fræðast um Explo á heimasíðu leiksins.

Skraflleikur

Ránmorð,
er það orð?

Í Netskraflinu getur fólk skraflað hvert við annað eða við misglúrna tölvuþjarka. Netskrafli var hleypt af stokkunum árið 2015 og síðan þá hafa nærri 42.000 manns skráð sig þar til leiks. Það er ókeypis en þau sem vilja styrkja rekstur þess geta gerst Vinir Netskrafls og lagt sem nemur einum kaffibolla á kaffihúsi á mánuði í púkkið.

Orðaforði Netskrafls byggir á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti. Og já, samkvæmt BÍN er ránmorð orð!

Netskrafl

Netskraflið hefur slegið í gegn sem skemmtileg og skerpandi afþreying fyrir alla sem hafa gaman af íslenskunni, krossgátum og spennandi viðureignum. Á netskrafl.is er hægt að skrafla við annað fólk og við tölvuþjarkana Amlóða, Miðlung og Fullsterkan. Orðaforði Netskraflsins byggir á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN), en í henni eru um 2,4 milljónir ólíkra orðmynda sem leggja má niður í skrafli.

Netskraflarar koma saman í líflegum fésbókarhópi, þar sem m.a. eru skipulögð regluleg skraflmót sem fram fara í gegnum tölvuskjáinn.

Netskrafl er ókeypis, en þau sem vilja geta gerst Vinir Netskrafls og lagt 490 kr. mánaðarlega í púkkið, til að standa straum af rekstri kerfisins og vinnu við það. Sem þakklætisvott njóta Vinir Netskrafls nokkurra fríðinda, til dæmis geta þeir haft ótakmarkaðan fjölda viðureigna í gangi samtímis, þeir hafa aðgang að yfirliti í lok hverrar viðureignar þar sem sjá má bestu leiki í hverri stöðu, og þeir geta skorað á aðra keppendur í svokölluðum keppnisham.